Flugvélin í Skerjafirði virðist hafa farist í lendingu

Flugvél sömu gerðar og fannst á botni Skerjafjarðar í síðustu …

Flugvél sömu gerðar og fannst á botni Skerjafjarðar í síðustu viku.
mbl.is

Landhelgisgæslan hefur haldið áfram rannsókn á flugvélarflakinu sem fannst í síðustu viku í Skerjafirði og hefur m.a. verið í sambandi við norska sendiráðið og Northrop flugvélaverksmiðjurnar í Kaliforníu sem smíðuðu vélina. Einnig hefur Landhelgisgæslan fengið gögn frá upplýsingamiðstöð NATO varðandi vopnabúnað flugvélarinnar. 

  Landhelgisgæslan hefur staðfest að flakið er af sjóflugvél af gerðinni Northrop N-3PB og virðist hún hafa farist í lendingu því að svokallaðir flapsar eru niðri, skrúfublöð bogin og flot rifin af.  Ekki hefur enn tekist að staðfesta hvort líkamsleifar eru í vélinni en staðfest er að flugstjórnarklefi er lokaður. 

  Samkvæmt norskum heimildum gætu verið lík þriggja manna í flakinu en Landhelgisgæslan á von á upplýsingum varðandi það frá breskum yfirvöldum  þar sem flugvélin var undir breskri yfirstjórn á stríðsárunum.

  Þrátt fyrir ítarlega leit hefur ekki tekist að finna aðrar merkingar á vélinni en norska einkennisliti undir vængjum og númer á olíukæli sem sent hefur verið til Northrop í Kaliforníu. 

  Flugvélar þessarar gerðar gátu borið um 2000 pund af sprengjum, þ.e. tundurskeytum, djúpsprengjum eða venjulegum sprengjum.  Þar sem flugvélin var í notkun á stríðstímum þegar hún fórst verður að reikna með sprengjum í eða við flakið.

  Köfunarbann verður áfram í gildi bæði vegna hættu á sprengjum og þar sem líkur benda til að um vota gröf sé að ræða.  Gerðar hafa verið ráðstafanir til að fylgst sé með umferð yfir flakinu, að sögn Landhelgisgæslunnar.

     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert