Íslendingar taka þátt í Eurovision að nýju

Sjónvarpið hefur auglýst eftir lagi til þátttöku fyrir Íslands hönd í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, sem fram fer í Lettlandi í maí 2003. Ísland hefur öðlast þátttökurétt að nýju eftir að hafa lent í síðasta sæti í Kaupmannahöfn vorið 2001 og misst því af keppninni í Eistlandi sl. vor.

Lagahöfundar hafa nú tækifæri til 18. nóvember nk. að skila inn tónsmíð sem ekki hefur verið flutt opinberlega áður og má að hámarki vera þrjár mínútur að lengd. Textinn skal vera á íslensku vegna flutnings hér heima, eins og það er orðað í auglýsingu Sjónvarpsins.

Rúnar Gunnarsson, deildarstjóri innlendrar dagskrárdeildar Sjónvarpsins, sagði við Morgunblaðið það vera ánægjulegt að vera þátttakandi að nýju. Að hans sögn er verið að skoða þá möguleika að halda forkeppni hér heima til að velja framlag Íslands.

Íhuga forkeppni

"Nú komum við vonandi sterk inn aftur. Við finnum fyrir miklum áhuga tónlistarfólks og eigum von á að fá fullt af lögum sent inn. Okkur langar til að halda forkeppni. Það fyrirkomulag hefur gefist mjög vel og hefur haft mikla þýðingu fyrir tónlistarbransann," sagði Rúnar og tók sem dæmi að Svíar ætluðu að vera með 30 lög í forkeppni, sem vekti jafnvel meiri athygli þar í landi en sjálf úrslitakeppnin.

Aðspurður hvort sigurlagið ætti einnig að vera flutt á íslensku í Lettlandi sagðist Rúnar reikna með að sama regla gilti og síðast, þ.e. að listamennirnir réðu sjálfir sínum flutningi á alþjóðlegum vettvangi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert