Nýr drykkur frá Pepsi, Pepsi Blue, er kominn á markað á Íslandi. Eins og nafnið bendir til er drykkurinn blár að lit og verður fyrst um sinn fáanlegur í takmörkuðu magni í hálfslítra og tveggja lítra plastflöskum. Pepsi Blue kom fyrst á markað í Bandaríkjunum í sumar eftir að unnið hafði verið að þróun drykkjarins frá því í ágúst 2001. Ísland er af fyrstu löndunum utan Bandaríkjanna þar sem Pepsi Blue kemur á markað að því er kemur fram í tilkynningu frá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni.
Þar kemur fram að í grundvallaratriðum er formúlan að Pepsi Blue hin sama og að Pepsi nema að drykkurinn er blár á lit. Kolsýruinnihald er aðeins hærra en í Pepsi en sætuinnihald lítið eitt lægra. Koffeinmagn Pepsi Blue er hið sama og í Pepsi.