Segja mislæg gatnamót geta fækkað slysum til muna

Á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar hafa orðið 583 árekstrar á síðustu sex árum samkvæmt upplýsingum Sambands íslenskra tryggingafélaga (SÍT). „Ein hættulegustu gatnamót á höfuðborgarsvæðinu í dag eru gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Vátryggingafélögin hafa um langt skeið haft verulegar áhyggjur af mikilli tjónatíðni á þessum gatnamótum,“ sagði Jón Ólafsson rekstrarstjóri SÍT.

SÍT gerði því tilraun með því að nota myndavél Íslenska útvarpsfélagsins á þaki Húss verslunarinnar til þess að mynda gatnamótin í þrjá mánuði vorið 2001 með leyfi Persónuverndar. Gerð var samantekt á algengum árekstrum sem voru myndaðir á þessu tímabili og þeir fjölfaldaðir á mynbandsspólu. „Bifreiðatryggingafélögin sem að upptökunum stóðu hyggjast nýta myndirnar í forvarnarskyni, t.d. á umferðarnámskeiðum sínum. Að auki vilja þessir aðilar vekja veghaldara og fjárveitingavaldið til umhugsunar um þann margþætta ávinning sem liggur í bættum umferðarmannvirkjum,“ sagði Jón Ólafsson á blaðamannafundi í dag.

Einar Guðmundsson hjá Sjóvá-Almennum sagði að mislæg gatnamót geti leitt til þess að árekstrum fækki gífurlega á fjölförnum gatnamótum í Reykjavík. Hann tók sem dæmi að á gatnamótum Miklubrautar og Reykjanesbrautar hafi tjónum fækkað úr 98 á ári í 7 tjón á ári að meðaltali eftir að sett voru upp mislæg gatnamót. Sömu sögu var að segja um gatnamót Miklubrautar og Réttarholtsvegar en þar voru tjón um 35 á ári en eru eftir framkvæmdir aðeins um 3 tjón á ári að meðaltali.

Einar sagði að vegna vaxandi umferðarþunga séu aftanákeyrslur orðnar algengustu tjónin á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar eða 78% allra árekstra. SÍT telur að ef sett yrði upp brú yfir Kringlumýrarbrautina með ljósagatnamótum myndi aftanákeyrslum ekki fækka, umferðarflæði um Miklubrautina yrði minna og tjónum myndi aðeins fækka um 57,5-67,5%. Hins vegar fælist besta lausnin í slaufugatnamótum sem spáð er að geti fækkað tjónum um 92%. Þessar framkvæmdir myndu kosta um það bil milljarð króna en talið er að með slaufugatnamótum myndu framkvæmdirnar borga sig á 7-10 árum.

„Það er von okkar að þetta átak mælist vel fyrir, veki áðurnefnda aðila til umhugsunar um nauðsyn góðra og vel hannaðra umferðarmannvirkja, en jafnframt viljum við vekja athygli ökumanna á þeirri ábyrgð sem þeir axla, er þeir setjast undir stýri. Sú ábyrgð verður aldrei frá þeim tekin. Að aka varlega og ávallt í samræmi við aðstæður á að vera aðalsmerki hvers ökumanns,“ sagði Jón Ólafsson að lokum.

Samband íslenskra tryggingafélaga hyggst kynna hugmyndir sínar og niðurstöður fyrir Reykjavíkurborg og Vegagerðinni á næstunni.

Með því að smella hér má sjá hreyfimynd sem sýnir árekstur á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert