Forætisráðherrar Norðurlanda gagnrýna ekki notkun Rússa á gasi í mannráninu

Davíð Oddsson, Paavo Lipponen og Kjell Magne Bondevik á blaðamannafundi …
Davíð Oddsson, Paavo Lipponen og Kjell Magne Bondevik á blaðamannafundi í dag. mynd/Matti Hurme

Norræna ráðherraráðið hefur ekki viljað gagnrýna notkun Rússa á gasi úr ópíumskyldu efni til að binda enda á gíslatöku í leikhúsi í Moskvu. Ráðið segir að þessi aðgerð hryðjuverkamannanna gæti hafa farið miklu verr. "Við þurfum meiri upplýsingar um málið en við verðum að hafa í huga að það hefði getað farið miklu verr en raunin varð," segir Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs.

Þetta er haft eftir Bondevik á fréttavef ráðsins og segir hann forsætisráðherra Danmerkur, Finnlands, Íslands og Svíþjóðar vera sama sinni.

Forsætisráðherra Norðurlandanna fimm eru staddir á fundi í Helsinki í tilefni þess að þetta er fimmtugasti ársfundur ráðherraráðsins.

Aðspurður um það hvort Rússar hefðu átt að nota gasið eður ei, svaraði Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur og núverandi formaður Evrópusambandsins: „Það er ekki okkar verkefni að ræða þetta nú. Það má aldrei borga sig að fremja hryðjuverk. Ekki í Afganistan, eða Írak eða nokkurs staðar. Við fordæmum allar gíslatökur í Moskvu."

Samskipti Rússlands og Danmerkur eru stirð um þessar mundir eftir að Danir neituðu að verða við kröfu Rússa um að færa til alþjóðlega ráðstefnu um Tsjetsjníu sem haldin er í Kaupmannahöfn um þessar mundir. Rasmussen segir ómögulegt hafa verið að verða við kröfu Rússa. „Við höfum sagt Rússum að samkvæmt dönsku stjórnarskránni og ákvæðum um tjáningarfrelsi er okkur ómögulegt að hindra slíka ráðstefnu," sagði danski forsætisráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert