Sex prófkjör verða haldin í nóvember

Þessar vikurnar eru stjórnmálaflokkarnir að taka ákvarðanir um val á frambjóðendum í efstu sæti framboðslista vegna alþingiskosninganna næsta vor. Aðeins tveir þingmenn af þeim sem nú sitja á Alþingi gefa ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu, Svanfríður Jónasdóttir, Samfylkingunni, og Sverrir Hermannsson, Frjálslynda flokknum. Valið er á listana með ýmsum hætti.

Stjórnmálaflokkarnir eru þessar vikurnar að velja þá sem koma til með að skipa efstu sætin á framboðslistum flokkanna vegna alþingiskosninganna sem fram fara 10. maí á næsta ári. Sex eiginleg prófkjör verða haldin í nóvember, en auk þess kýs þrengri hópur flokksmanna frambjóðendur í nokkrum kjördæmum. Víða er viðhöfð uppstilling. Aðeins tveir þingmenn af þeim sem nú sitja á Alþingi gefa ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu, en það eru Svanfríður Jónasdóttir, Samfylkingunni, og Sverrir Hermannsson, Frjálslynda flokknum.

Sem kunnugt er verður í vor kosið eftir nýrri kjördæmaskipan. Í stað átta kjördæma sem kosið hefur verið í frá árinu 1959 verður nú kosið í sex kjördæmum. Í stuttu máli má segja að þessi breyting leiði til þess að þingmönnum sem kosnir eru í landsbyggðarkjördæmum fækki, en þingmönnum sem kosnir eru á höfuðborgarsvæðinu fjölgi.

Sjálfstæðisflokkurinn stillir upp í þremur kjördæmum

Sjálfstæðisflokkurinn verður með prófkjör í þremur kjördæmum og uppstillingu í þremur kjördæmum. Sameiginlegt prófkjör verður í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur dagana 22.-23. nóvember. Sá sem verður í fyrsta sæti í prófkjörinu verður í forystu fyrir flokkinn í öðru kjördæminu og sá sem verður í öðru sæti í prófkjörinu verður í forystu fyrir flokkinn í hinu kjördæminu og svo koll af kolli. Sautján bjóða sig fram í prófkjörinu. Þau eru Ásta Möller alþingismaður, Birgir Ármannsson aðstoðarframkvæmdastjóri, Björn Bjarnason alþingismaður, Davíð Oddsson forsætisráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson borgarfulltrúi, Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður, Guðrún Inga Ingólfsdóttir hagfræðingur, Ingvi Hrafn Óskarsson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, Katrín Fjeldsted alþingismaður, Lára Margrét Ragnarsdóttir alþingismaður, Pétur H. Blöndal alþingismaður, Sigurður Kári Kristjánsson héraðsdómslögmaður, Soffía Kristín Þórðardóttir þjónustustjóri, Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra, Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur og Vernharð Guðnason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Sjálfstæðisflokkurinn verður einnig með prófkjör í Norðvesturkjördæmi, en það fer fram 9. nóvember. Tíu eru í kjöri, en þau eru, Birna Lárusdóttir bæjarfulltrúi, Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður, Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, Guðjón Guðmundsson alþingismaður, Jón Magnússon verkfræðingur, Jóhanna Pálmadóttir bóndi, Ragnheiður Hákonardóttir bæjarfulltrúi, Skjöldur Orri Skjaldarson bóndi, Sturla Böðvarsson alþingismaður og Vilhjálmur Egilsson alþingismaður,

Í Norðausturkjördæminu mun kjörnefnd stilla upp á framboðslista Sjálfstæðisflokksins. Tillaga nefndarinnar verður síðan lögð fyrir kjördæmisþing sem ráðgert er að halda í lok nóvember. Þingmenn flokksins gefa kost á sér þ.e. Arnbjörg Sveinsdóttir, Halldór Blöndal, Sigríður Ingvarsdóttir og Tómas Ingi Olrich.

Í Suðurkjördæmi verður Sjálfstæðisflokkurinn einnig með uppstillingu. Tillaga kjörnefndar verður lögð fyrir kjördæmisráðsfund sem ráðgert er að halda 30. nóvember. Þingmennirnir Árni Ragnar Árnason, Drífa Hjartardóttir, Kjartan Ólafsson og Kristján Pálsson gefa öll kost á sér til framboðs.

Í Suðvesturkjördæminu, sem inniheldur m.a. Kópavog, Hafnarfjörð, Garðabæ og Mosfellsbæ verður einnig viðhöfð sú aðferð hjá Sjálfstæðisflokknum að fela kjörnefnd að leggja fram tillögu að framboðslista. Stefnt er að því að leggja tillöguna fyrir fund í kjördæmisráði 30. nóvember. Þingmennirnir Árni M. Mathiesen, Gunnar Ingi Birgisson, Sigríður Anna Þórðardóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu.

Samfylkingin með prófkjör 9. nóvember

Samfylkingin verður með prófkjör í öllum kjördæmum nema í Norðvesturkjördæmi. Þar hefur uppstillingarnefnd verið falið að stilla upp á lista. Öll prófkjörin fara fram 9. nóvember. Nokkuð mismunandi er hvenær kjörskrá er lokað. Það er t.d. búið að loka kjörskrá í Norðausturkjördæmi þar sem fer fram póstkosning, en hún hófst formlega um helgina og lýkur 7. nóvember. Úrslit verða tilkynnt 9. nóvember. Kjörskrá í Suðurkjördæmi verður lokað 3. nóvember. Í Suðvesturkjördæmi er kjörskránni lokað 6. nóvember, en í Reykjavík geta stuðningsmenn Samfylkingarinnar skráð sig í flokkinn fram á kjördag, 9. nóvember.

Samfylkingin er með sameiginlegt prófkjör í Reykjavík, en þar eru 13 í kjöri, en þau eru Ágúst Ólafur Ágústsson háskólanemi og formaður Sambands ungra jafnaðarmanna, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir alþingismaður, Birgir Dýrfjörð rafvirkjameistari, Bryndís Hlöðversdóttir alþingismaður, Guðrún Ögmundsdóttir alþingismaður, Einar Karl Haraldsson ráðgjafi, Helgi Hjörvar varaborgarfulltrúi, Hólmfríður Garðarsdóttir aðjúnkt, Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður, Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður, Mörður Árnason íslenskufræðingur, Sigrún Grendal formaður Félags tónlistarkennara og Össur Skarphéðinsson alþingismaður.

Í Norðausturkjördæmi eru sjö í kjöri, en þau eru séra Cecil Haraldsson, Einar Már Sigurðarson alþingismaður, Kristján L. Möller alþingismaður, Lára Stefánsdóttir, Þorgerður Þorgilsdóttir sjúkraliði, Þorlákur Axel Jónsson kennari og Örlygur Hnefill Jónsson lögmaður. Kosið er um tvö efstu sæti listans.

Í Suðurkjördæmi eru átta í kjöri, en þau eru Björgvin G. Sigurðsson varaþingmaður, Jóhann Geirdal bæjarfulltrúi, Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri, Lúðvík Bergvinsson alþingismaður, Margrét Frímannsdóttir alþingismaður, Sigríður Jóhannesdóttir alþingismaður, Unnur Kristjánsdóttir kennari og séra Önundur Björnsson sóknarprestur.

Í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi eru ellefu í kjöri en þau eru Ásgeir Friðgeirsson blaðamaður, Bragi J. Sigurvinsson, Guðmundur Árni Stefánsson alþingismaður, Jón Kr. Óskarsson, Jónas Sigurðsson, Katrín Júlíusdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir alþingismaður, Stefán Bergmann dósent, Valdimar Leó Friðriksson, Þorlákur Oddsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingismaður.

Framsóknarmenn láta kjósa á kjördæmisþingum

Nokkuð misjafnt er hversu langt framsóknarmenn eru komnir í undirbúningi á vali á framboðslistum í einstökum kjördæmum. Í einu kjördæmi, Suðvesturkjördæmi, er búið að velja menn í efstu sæti, en það var gert á tvöföldu kjördæmisþingi sem haldið var um síðustu helgi. Í sex efstu sætum verða Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, Páll Magnússon aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, Una María Óskarsdóttir uppeldis- og menntunarfræðingur, Egill Arnar Sigurþórsson nemi, Hildur Helga Gísladóttir og Gestur Valgarðsson verkfræðingur.

Framsóknarmenn í Reykjavík áforma að halda kjördæmisþing í kvöld þar sem fyrirhugað er að taka ákvörðun um fyrirkomulag við uppstillingu á framboðslista flokksins. Alþingismennirnir Halldór Ásgrímsson, Jónína Bjartmarz og Ólafur Örn Haraldsson hafa lýst yfir framboði í Reykjavík.

Í Norðvesturkjördæmi ætlar Framsóknarflokkurinn að viðhafa sömu aðferð og notuð var í Suðvesturkjördæmi, þ.e. að kjósa milli frambjóðenda á tvöföldu kjördæmisþingi. Kosning fer fram 16. nóvember. Átta bjóða sig fram, Árni Gunnarsson framkvæmdastjói, Elín Líndal bóndi, Herdís Sæmundardóttir framhaldsskólakennari, Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður, Magnús Stefánsson alþingismaður, Páll Pétursson alþingismaður, Ragna Ívarsdóttir og Þorvaldur T. Jónsson bóndi og bæjarfulltrúi.

Framsóknarflokkurinn í Norðausturkjördæmi hefur boðað til tvöfalds kjördæmisþings 11. janúar, en þar verður kosið milli frambjóðenda. Framboðsfrestur rennur út 1. desember nk. Þegar hafa fjórir lýst yfir framboði, Birkir Jón Jónsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Þórarinn Sveinsson fráfarandi formaður kjördæmissambandsins.

Í Suðurkjördæmi verða efstu menn á lista Framsóknarflokksins kosnir á kjördæmisþingi sem fram fer í janúar. Þrír alþingismenn hafa gefið kost á sér, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, Hjálmar Árnason og Ísólfur Gylfi Pálmason.

Vinstrihreyfingin með uppstillingu

Flest bendir til þess að Vinstrihreyfingin - grænt framboð mun ekki viðhafa prófkjör í neinu kjördæmi. Þegar hefur verið ákveðið að viðhafa uppstillingu í Suðvesturkjördæmi, í Norðausturkjördæmi og í Suðurkjördæmi. Í Reykjavík voru framboðsmál til umfjöllunar á fundi í gærkvöldi. Flokkurinn stefnir að því að ljúka uppstillingu á lista í öllum kjördæmum fyrir áramót.

Allir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson, óska eftir endurkjöri.

Frjálslyndi flokkurinn er að hefja undirbúning framboðs

Frjálslyndi flokkurinn er að hefja undirbúning að framboðsmálum. Flokkurinn verður með samráðsfund 9. nóvember þar sem framboðsmál verða til umræðu. Ljóst er að viðhöfð verður uppstilling í öllum kjördæmum, en ólíklegt er að framboðslistar verði kynntir fyrr en um áramót. Sverrir Hermannsson, formaður flokksins, sækist ekki eftir endurkjöri, en Margrét Sverrisdóttir, varaþingmaður, ætlar að bjóða sig fram í Reykjavík. Þá mun Guðjón Arnar Kristjánsson alþingismaður bjóða sig fram í Norðvesturkjördæmi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert