Elín Magnúsdóttir, elsti núlifandi Íslendingurinn, varð 107 ára í gær. Elín hefur verið vistmaður á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri undanfarin ár. Hún er við sæmilega heilsu, hlustar enn á útvarp og fylgist með fréttum. Hún klæðir sig daglega en ferðast um í hjólastól. Elín sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hún væri þakklát Guði fyrir að geta talað, séð og heyrt. Hún sagðist þó ekkert montin með þann titil að vera elsti Íslendingurinn.
Elín fæddist á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd 4. nóvember 1895. Hún var í sambúð með Jóni Stefánssyni, lengst af á Gröf í Öngulsstaðahreppi, og eignuðust þau tvö börn. Jón lést árið 1956 og dóttir Elínar og Jóns, Anna Sigríður, lést árið 1997.
Jón Laxdal, sonur Elínar, sagði að móðir sín fylgdist enn vel með því sem gerðist innan fjölskyldunnar. Hann sagði að hún hefði ávallt verið mjög heilsuhraust. Jón sagði að læknir sem skoðaði hana rúmlega áttræða hefði sagt að hún ætti eftir að verða mjög gömul. Nánasta fjölskylda Elínar heimsótti hana á þessum tímamótum í gær og fékk sér tertu með afmælisbarninu.