Hálfs árs fangelsi fyrir akstursbrot er leiddi til dauða þriggja farþega

Tæplega þrítugur karlmaður var dæmdur í hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun fyrir umferðarlagabrot og jafnframt var hann sviptur ökuréttindum í fjögur ár. Var hann ökumaður bifreiðar en þrír farþegar hans biðu bana er bifreiðin skall á annarri á Nesjavallavegi fyrir rétt rúmu ári.

Manninum var gefið að sök að hafa í októberlok í fyrra ekið bifreið sinni að beygju og vegamótum á Nesjavallavegi án nægjanlegrar tillitssemi og varúðar, of hratt miðað við aðstæður og almenn hraðamörk og án þess að taka sérstakt tillit til öryggis annarra, með þeim afleiðingum að hann missti stjórn á bifreiðinni. Lenti hún yfir á akrein fyrir umferð úr gagnstæðri átt, rakst þar á bifreið þannig að þær lentu báðar út fyrir veg og allir þrír farþegarnir í bifreið ákærða hlutu svo mikla áverka að þeir biðu bana af.

Maðurinn hlaut í vor tveggja ára fangelsi fyrir skjalafals og fjársvik og var refsingin fyrir brotið, sem hann var dæmdur fyrir í morgun, ákveðið sem hegningarauki við þann dóm.

Dómara þótti að akstur ákærða hafi verið mjög vítaverður og þótti honum af þeim sökum hæfilegt að svipta hann ökurétti í fjögur ár frá og með deginum í dag.

Er ökumaðurinn kom á slysadeild hafði hann á sér fimm e-töflur og 1,86 gramm af hassi. Af þeim sökum var hann og ákærður fyrir fíkniefnalagabrot. Hann kvaðst ekki hafa vitað til þess að hann hafi átt fíkniefnið og engin sönnunarfærsla fór fram fyrir dómi um það atriði og var hann því sýknaður af þeirri ákæru. Hann var dæmdur til að borga allan sakarkostnað, þar með talinn 150.000 krónur í málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert