Listaverk bankanna komin úr eigu ríkisins

Listaverk í eigu Landsbankans og Búnaðarbankans eru hátt í 1.200 talsins, þar af um 300 hundruð í Landsbankanum og á níunda hundrað í Búnaðarbankanum. Ekki liggur fyrir beint verðmat á þessum eignum bankanna en þeir hafa ekki látið meta verkin.

Við breytingu ríkisbankanna í hlutafélög tóku hlutafélögin yfir allar eignir og skuldir bankanna tveggja og þar með talin listaverk í þeirra eigu. Hefði ríkið viljað tryggja sér og þar með almenningi eignarhald á listaverkasafni bankanna hefði þurft að undanskilja verkin þegar bönkunum var breytt í hlutafélög fyrir nokkrum árum. Dæmi eru um að eignir hafi verið undanskildar þegar ríkisfyrirtækjum hefur verið breytt í hlutafélög. Það var t.d. gert með frímerkjasafn Pósts og síma, en það fylgdi ekki með þegar þeirri stofnun var breytt í hlutafélag.

Enda þótt ríkið sé, að minnsta kosti enn sem komið er, stór hluthafi í Búnaðarbanka og Landsbanka eru hluthafar bankanna fjölmargir og því þyrfti ríkið, ef vilji stæði til slíks, væntanlega að kaupa verkin af Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Núverandi söluáform á hlut ríkisins í bönkunum breyta engu um þetta.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir að bæði Landsbankinn og Búnaðarbankinn séu skráðir í Kauphöll og séu í eigu tuga þúsunda landsmanna og svo ríkisins. Spurð hvort sú staða kunni ekki að koma upp að t.d. Samson ehf. kynni að beita sér fyrir sölu listaverka í eigu Landsbankans, jafnvel úr landi, segist Valgerður ekki hafa trú á því. Bankinn eigi hagsmuna að gæta meðal almennings og hún hafi því ekki trú á að eigendur hans tækju slíka ákvörðun. Valgerður segist hafa fulla trú á að listaverkin verði áfram í eigu bankanna þrátt fyrir að ríkið selji ráðandi hlut; þau séu sýnileg í bönkunum sjálfum og hún hafi ekki trú á öðru en að svo verði áfram.

Bankarnir hlutafélög í eigu margra

Ólafur Davíðsson, formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu, segir að það séu Landsbankinn og Búnaðarbankinn sem eigi listaverkin. "Þetta eru hlutafélög í eigu fjölmargra. Það er verið að selja þessi fyrirtæki með öllu sem þau eiga, og réttilega. Okkar sjónarmið er að þetta séu eignir sem ríkið er síðan að selja sinn hlut í."

Sólon Sigurðsson, bankastjóri í Búnaðarbankanum, segir að listaverk sem Búnaðarbankinn eigi slagi nú væntanlega á níunda hundraðið. "Þessi verk eru eign Búnaðarbankans hf. og ég tel að ef ríkið hefði ætlað að halda þeim eftir hefði það þurft að gerast miklu fyrr. En auðvitað getur ríkið samið við eigendur bankans en ég hef enga trú á að það sé eðlilegt eða gerlegt að taka þessar eignir frá."

Aðspurður segir Sólon að bankinn hafi ekki látið meta listaverkin til fjár og verðmat liggi því ekki fyrir. "Við höfum tvisvar sinnum haldið sýningar og erum alltaf með sýningu í glugganum í Austurstræti og nánast öll verkin hanga uppi á veggjum Búnaðarbankans um allt land, í afgreiðslusölum og á skrifstofum og fundarsölum þannig að almenningur getur vissulega séð verkin."

Um sex hundruð verk eru á skrá hjá Landsbanka Íslands en þar af eru um 300 sem flokka má sem listaverk, segir Haukur Þór Haraldsson, yfirmaður rekstrarsviðs Landsbankans.

"Við skráum öll verk, jafnvel eftirprentanir eða ljósrit en raunveruleg listaverk í eigu bankans eru mun færri eða kannski um þrjú hundruð. Nær öll þessi verk hanga uppi á veggjum víðs vegar í Landsbankanum en lunginn þó í Austurstræti og að Laugavegi 77."

Aðspurður segir Haukur að verðmæti þessara verki liggi ekki fyrir og svar við þeirri spurningu myndi velta nokkuð á því hvern menn spyrðu. "En það er alveg ljóst að það liggja mikil verðmæti í verkum eins og til að mynda eftir gömlu meistarana."

Haukur segir að á sínum tíma þegar breyting varð á eignarformi Landsbankans hafi menn ekki séð ástæðu til þess að undanskilja tilteknar eignir. "Verkin eru því ekki lengur í eigu ríkisins nú þegar meirihlutinn í bankanum er í eigu annarra og ef ríkið hefur áhuga á einhverjum eignum bankans verður það væntanlega að kaupa þær af honum því þótt ríkið sé stór hluthafi eiga aðrir hluthafar helming á móti ríkinu. Það verða engar eignir afhentar úr Landsbankanum og að þessu leyti hefur staðan ekki breyst á síðustu mánuðum."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert