Árakrar ehf., sem er félag sex byggingarfyrirtækja, og Byggingarfélagið Arnarnes, sem er í eigu Jóns Ólafssonar, stjórnarformanns Norðurljósa, hafa undirritað samning um kaup byggingarfyrirtækjanna á eignarlóðum undir 275 íbúðir í landi Arnarness í Garðabæ.
Kaupverð lóðanna er 455 milljónir króna.
Kaupendurnir hafa stofnað hlutafélagið Árakra ehf. um kaupin en þeir verktakar sem standa á bak við kaupin eru Sigurður og Júlíus ehf., Kristjánssynir ehf., Byggingafélagið Óskar og Árni ehf., Sérverk ehf., Markholt ehf. og Harri ehf.
Að sögn Gísla R. Rafnssonar, framkvæmdastjóra Árakra, er reiknað með að framkvæmdir hefjist næsta sumar en viðræður um uppbyggingu á landinu standa yfir um þessar mundir við bæjaryfirvöld í Garðabæ.
Kaupsamningurinn felur í sér kaup á öllum þeim lóðum á Arnarneslandi sem skipulagðar hafa verið undir rað-, par- og fjölbýlishús eða samtals um 275 íbúðir.
Allar einbýlishúsalóðir á svæðinu, eða samtals 141 eignarlóð, og norðurhluti Arnarneslands, sem er óskipulagt land um 7,3 hektarar, verða hins vegar áfram í eigu Byggingarfélagsins Arnarness. Jón Ólafsson keypti Arnarneslandið í ársbyrjun 1999 fyrir tæpar 700 milljónir króna. Hann seldi fljótlega hluta landsins fyrir 200 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum sem fengust í gær verða einbýlishúsalóðirnar boðnar til sölu til einstaklinga í framhaldi af þessum samningi.