Þeir sem voru í jólagjafainnkaupum í miðbæ Reykjavíkur í gær ráku sumir upp stór augu þegar þeir sáu tvo lögregluþjóna ganga upp Bankastrætið með lögregluhund í bandi. Þarna var austurríski lögregluhundurinn Rex ekki á ferðinni, eins og einhver gæti hafa haldið, heldur hinn rammíslenski schäfer-hundur Flóki, sem hefur gengið til liðs við lögregluna í Reykjavík.
Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að lögreglan í Reykjavík hafi fimm lögregluhunda á sínum snærum en fleiri séu í þjálfun. Vegna ákvörðunar ríkislögreglustjóra um að fjölga hundum hjá lögregluembættum landsins hafi verið tekin sú stefna að nota hundana meira en til þessa og þjálfa þá til almennra lögreglustarfa eins og þekkist víða um heim. Lögreglan muni fara meira inn á þá braut á næstunni og stefnt sé að fjölgun lögregluhunda á næsta ári.
Sigurður Jónasson lögreglumaður er eigandi Flóka en Ríkharður Örn Steingrímsson er með honum á myndinni. Karl Steinar segir að Flóki hafi verið tekinn með í almennt lögreglueftirlit í miðbænum í gær, ekki síst sökum veðurblíðunnar, en hundar geti haft margs konar þjálfun. Hundar geti nýst við fíkniefnaleit, sprengjuleit, mannfjöldastjórnun og almennt eftirlit, þá megi nota til sporleitar og til að leita uppi menn, t.d. í húsnæði sem hefur verið brotist inn í.