30 skútur væntanlegar til Akureyrar í sumar

Búist er við fjölmörgun frönskum skútum til Akureyrar í sumar.
Búist er við fjölmörgun frönskum skútum til Akureyrar í sumar.

Búist er við að minnsta kosti 30 skútur verði á Pollinum á Akureyri í júní í sumar í tengslum við siglingakeppni milli Íslands og Frakklands. Keppnin hefst í bænum Paimpol á norðurströnd Frakklands og sigla skúturnar til Reykjavíkur og þaðan til Akureyrar og síðan til baka til Paimpol.

Árið 2000 var fyrst skipulögð siglingakeppni á skútum frá Paimpol í Frakklandi til Reykjavíkur. Keppnin er til minningar um siglingar franskra sjómanna á fengsæl fiskimið við Íslandsstrendur fyrr á tímum en einnig í þeim tilgangi að efla tengsl við Íslendinga.

Nú á að endurtaka keppnina því hún tókst með ágætum fyrir þremur árum og vilja aðstandendur bæta Akureyri við sem áfangastað. Leiðin verður því Paimpol-Reykjavík-Akureyri-Paimpol. Keppnin hefst 1. júní í Paimpol og verður komið til Akureyrar 19. eða 20. júní. Farið verður frá Akureyri áleiðis til Paimpol 22. júní að því er fram kemur á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Skipuleggjendur keppninnar eiga von á því að í það minnsta 30 skútur taki þátt í keppninni. Síðast var ein íslensk skúta með en vonandi verða þær fleiri núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert