Davíð ræddi við Koizumi í Tókýó

Davíð Oddsson og Jinichiro Koizumi á forsætisráðherraskrifstofunni í Tókýó í …
Davíð Oddsson og Jinichiro Koizumi á forsætisráðherraskrifstofunni í Tókýó í morgun. AP

Davíð Oddsson forsætisráðherra hitti Jinichiro Koizumi forsætisráðherra Japans að máli í Tókýó í morgun en Davíð er í Japan í opinberri heimsókn. Eftir fundinn sagði Davíð að þeir Koizumi hefðu rætt um ýmis sameiginleg hagsmunamál ríkjanna sem hefðu lengi átt vinsamleg samskipti sem hefðu aukist eftir að sendiráð Íslendinga og Japana voru opnuð í Tókýó og Reykjavík fyrir ári.

Sagði Davíð að þeir Koizumi hefðu rætt um viðskiptamál og hvalamálið sem væri báðum ríkjum mikilvægt. Þá hefðu þeir einnig rætt um þau alþjóðamál sem efst eru á baugi um þessar mundir varðandi Norður-Kóreu og Írak. Þeir hefðu einnig rætt um persónuleg mál. „Þetta voru mjög góðar viðræður og við vonum að forsætisráðherrann fái tækifæri til að heimsækja Ísland á næstunni eða geti að minnsta kosti átt sameiginlegan fund með forsætisráðherrum Norðurlandanna eins og tveir forverar hans hafa gert," sagði Davíð.

Hann hitti einnig Oghi samgönguráðherra í morgun og heimsótti NHK, japanska sjónvarpið. Eftir fundinn með Koizumi var hádegisverðarboð fyrir Davíð og fylgdarlið hans í húsnæði kunns japansks fatahönnuðar sem er vinkona íslensku sendiherrahjónanna í Japan, þeirra Ingimundar Sigfússonar og Valgerðar Valsdóttur. Þarna var haldin tískusýning og kammerhljómsveit lék undir. Eftir tískusýninguna lék hljómsveitin íslenska þjóðsönginn og síðan afmælissönginn en Davíð er 55 ára gamall í dag. Kom þetta afmælisboð íslensku forsætisráðherrahjónunum mjög á óvart.

Í heimsókn í höfuðstöðvar japanska ríkissjónvarpsins í Tókýó, sýndi Katuji …
Í heimsókn í höfuðstöðvar japanska ríkissjónvarpsins í Tókýó, sýndi Katuji Ebisawa sjónvarpsstjóri Davíð Oddssyni hágæða þrívíddarsjónvarp sem búist er við að verði hluti af húsbúnaði japanskra heimila eftir um áratug eða svo. Til að horfa á myndina þurfti Davíð að setja upp þvívíddargleraugu. mbl.is/Einar Falur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert