Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar sagði á flokksstjórnarfundi sem haldinn var í Borgarnesi í dag að færa mætti rök að því að afskiptasemi stjórnmálamanna af fyrirtækjum landsins sé ein aðal meinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs.
Sagði Ingibjörg Sólrún, að segja mætti að það sé orðstýr fyrirtækja jafn skaðlegt að lenda undir verndarvæng Davíðs Oddssonar eins og það er að verða að skotspæni hans.
„Ég vil þannig leyfa mér að halda því fram að það hafi skaðað faglega umfjöllun um Ísl. erfðagreiningu, bæði hérlendis og erlendis, að sú skoðun er útbreidd að fyrirtækið njóti sérstaks dálætis hjá forsætisráðherranum. Það vekur upp umræðu og tortryggni um að gagnagrunnur fyrirtækisins og ríkisábyrgðin byggist á málefnalegum og faglegum forsendum en ekki flokkspólitískum. Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum? Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki - þarna er efinn og hann verður ekki upprættur nema hinum pólitísku afskiptum linni og hinar almennu gagnsæju leikreglur lýðræðisins taki við. Þetta er verkefni Samfylkingarinnar. Samfylkingin á að vera óháð öllum helstu eignahópum í samfélaginu, hún á að gæta almannahagsmuna ekki sérhagsmuna,“ sagði Ingibjörg Sólrún meðal annars.
Hún sagði einnig að nú lægi eitthvað í loftinu og það væri verkefni Samfylkingarinnar að breyta því úr óræðum væntingum í orð og athafnir. Tvisvar áður hefði hún orðið þess áskynja að eitthvað lægi í loftinu, í fyrra skiptið þegar Kvennaframboðið var stofnað og í síðara skiptið við stofnun Reykjavíkurlistans.
„Við ætlum að vera flokkur sem nýtur trausts og hefur trúverðugleika - ekki vegna þess að við höfum svör á reiðum höndum við öllu sem upp kemur heldur vegna hins að við munum vanda okkur við leit að svörum. Heldur ekki vegna þess að við höfum lausn á hvers manns vanda heldur vegna hins að við viðurkennum að flókin viðfangsefni kalla á yfirlegu og góða dómgreind og oftar en ekki fjölþætta úrlausn þar sem hópar og einstaklingar leggja saman. Við eigum að boða stjórnmál sátta og rökræðu en ekki átaka og kappræðu,“ sagði Ingibörg Sólrún.