Fornleifavernd ríkisins hefur gefið út friðlýsingarskjal þar sem flak Northrop-flugvélarinnar sem fannst í Skerjafirði 27. ágúst 2002 er friðlýst. Friðlýsingin felur í sér köfunarbann yfir flakinu og í 20 metra radíus í kringum það. Friðlýsingin gildir þar til annað verður ákveðið af Fornleifavernd ríkisins í samráði við Landhelgisgæslu Íslands og dómsmálaráðuneyti.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni hafa sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar haft yfirumsjón með köfun við flakið og rannsókn á því. Hafa þeir aflað sér margvíslegra heimilda um það m.a. frá Northrop Gruman-verksmiðjunum, flugsafninu í Kaliforníu og breska og norska sendiráðinu.
Flugvélin fannst með fjölgeislamæli sem bandaríski sjóherinn lánaði Landhelgisgæslunni síðasta sumar. Einu merkingarnar sem hafa fundist á vélinni eru norskir einkennislitir undir vængjum og númer á olíukæli. Flugvélin var í notkun á stríðstímum og segir Landhelgisgæslan að því megi reikna með sprengjum í eða við flakið. Ekki hefur verið staðfest hvort áhöfn vélarinnar fórst er hún sökk á sínum tíma og hvort líkamsleifar eru í vélinni.