Jón Ólafsson hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir m.a. „Ég hef heimilað lögmönnum mínum að afhenda Morgunblaðinu öll gögn varðandi skattamál mitt og JÓCÓ ehf., enda hef ég ekkert að fela hvorki gagnvart íslenskum né enskum skattayfirvöldum, sem hafa úrskurðað mig sem enskan skattþegn frá árinu 1998 að telja,“ segir í yfirlýsingunni. Ýtarleg umfjöllun verður í Morgunblaðinu á morgun um málið.
Yfirlýsing Jóns Ólafssonar fer hér á eftir:
„Tæpt ár er liðið síðan Skattrannsóknarstjóri ríkisins gerði húsleit á skrifstofu minni og hjá fyrirtæki mínu JÓCÓ ehf. (áður Jóni Ólafssyni og Co.sf.) og Norðurljósum samskiptafélagi hf. Hinn 6. desember 2002 sendi Skattrannsóknarstjóri ríkisins mér rannsóknarskýrslu embættisins til umsagnar og andmæla, eins og bæði skatta- og stjórnsýslulög kveða á um.
Hinn 12. febrúar afhentu lögmenn mínir, þeir Ragnar Aðalsteinsson hrl. og Berhard Bogason hdl., Skattrannsóknarstjóra ríkisins andsvör mín. Andsvör JÓCÓ ehf., verða afhent við frestlok þess félags hinn 20. febrúar.
Ég hef jafnframt heimilað lögmönnum mínum að afhenda Morgunblaðinu öll gögn varðandi skattamál mitt og JÓCÓ ehf., enda hef ég ekkert að fela hvorki gagnvart íslenskum né enskum skattayfirvöldum, sem hafa úrskurðað mig sem enskan skattþegn frá árinu 1998 að telja. Með því að afhenda Morgunblaðinu öll gögn svo blaðmenn þar geti unnið úr þeim fréttir vonast ég til að sögusögnum um stórfelld skattsvik mín linni og ég fái notið þeirra mannréttinda á Íslandi að vera saklaus þar til sekt mín hefur verið sönnuð með þeim hætti sem lög kveða á um.
London 13. febrúar 2003,
Jón Ólafsson."