Samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið, nýtur Samfylkingin nú stuðnings 40,1% kjósenda og Sjálfstæðisflokkurinn er með 35,8% fylgi. Könnunin var gerð dagana 6.-10. febrúar og studdist stofnunin við 1.200 manna slembiúrtak úr þjóðskrá sem náði til allra landsmanna á aldrinum 18-80 ára. Fylgi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins er það mikið í Reykjavík að flokkarnir gætu fengið flesta eða jafnvel alla þingmenn í Reykjavíkurkjördæmunum. Mælist Samfylkingin þar með 48,4% fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn með 39%.
Óvissa er um hvort Framsóknarflokkurinn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð ná inn manni í Reykjavík og könnunin bendir til þess að Frjálslyndi flokkurinn nái engum manni kjörnum til Alþingis, er með tvo núna.
Könnunin sýnir jafnframt að allir flokkar hafa tapað fylgi miðað við síðustu þingkosningar, að Samfylkingunni undanskildri, sem bætir við sig 13,2 prósentustigum frá kosningum og mælist nú með 40,1% fylgi, miðað við þá sem afstöðu tóku í könnuninni. Svipuð þróun hefur einnig verið frá síðustu könnun Félagsvísindastofnunar HÍ frá ágúst 2002, nema að Frjálslyndi flokkurinn hefur bætt lítillega við sig síðan þá.
Þrjár spurningar voru lagðar fyrir svarendur um hvað þeir myndu kjósa ef alþingiskosningar yrðu haldnar á morgun. Fyrst var spurt: Ef þingkosningar yrðu haldnar á morgun, hvaða flokk eða lista heldurðu að þú myndir kjósa? Svörin þá skiptust þannig að 26,7% ætluðu að kjósa Samfylkinguna, 26,2% Sjálfstæðisflokkinn, 9,2% Framsóknarflokkinn, 5,2% Vinstri græna, 2,1% Frjálslynda flokkinn, 0,2% flokk þjóðernissinna, 23,4% voru óákveðin og 7% ætluðu ekki að kjósa, skila auðu eða neituðu að svara.
Þeir sem sögðust ekki vita hverja þeir ætluðu að kjósa voru spurðir áfram: En hvaða flokk eða lista finnst þér líklegast að þú munir kjósa? Þá skiptust svörin þannig að 35,8% ætluðu að kjósa Samfylkinguna, 33,9% Sjálfstæðisflokkinn, 12% Framsóknarflokkinn, 6,7% Vinstri græna, 2,5% Frjálslynda flokkinn, 0,3% flokk þjóðernissinna og 8,7% ætluðu ekki að kjósa, skila auðu eða neituðu að svara.
Þeir sem sögðust enn vera óákveðnir voru þá spurðir: En hvort heldurðu að sé líklegra, að þú kjósir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk eða lista? Svarendum þessarar spurningar er bætt þannig við að þeim sem segjast líklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn er bætt við fylgi hans úr fyrri tveimur spurningunum en hinum sem segjast líklegri til að kjósa einhvern annan flokk, er skipt á milli þeirra flokka sem eftir eru í sömu innbyrðis hlutföllum og fengust úr tveimur fyrri spurningunum.
Félagsvísindastofnun segist beita þessari aðferð þar sem reynslan sýni tilhneigingu til þess að fylgi Sjálfstæðisflokksins sé ofmetið í könnunum, miðað við fylgi hans á kjördag.
Eftir þriðju spurninguna sögðust 4,5% enn vera óákveðin en miðað við þá sem afstöðu tóku var fylgi Samfylkingarinnar 40,1%, var 27,1% í síðustu könnun og 26,8% í kosningunum 1999. Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 35,8% fylgi, var með 41,7% í síðustu könnun og 40,7% í kosningunum. Framsóknarflokkurinn nýtur stuðnings 13,5% kjósenda, samanborið við 17,6% í síðustu könnun og 18,4% í kosningum, Vinstri grænir fá 7,4%, sem er 4,3 prósentustigum minna en í síðustu könnun Félagsvísindastofnunar og 1,7 prósentustigum minna en í kosningum fyrir tæpum fjórum árum. Frjálslyndi flokkurinn fengi 2,9% atkvæða, yrði kosið nú, samanborið við 1,6% í síðustu könnun og 4,2% í kosningunum. Flokkur þjóðernissinna fengi 0,3% en komst ekki á blað síðast.