Símon Gunnarsson endurskoðandi og fyrirtækið KPMG hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar Morgunblaðsins um skattamál Jóns Ólafssonar og fyrirtækja hans. Í yfirlýsingunum segir að ávirðingar sem bornar séu á Símon í skýrslu skattrannsóknarstjóra um fyrirtækið Jón Ólafsson & Co. sf. eigi ekki við rök að styðjast.
Yfirlýsing Símonar Gunnarssonar er eftirfarandi:
Yfirlýsing vegna umfjöllunar Morgunblaðsins um skattamál Jóns Ólafssonar og fyrirtækja hans
Vegna umfjöllunar Morgunblaðsins 14. febrúar sl. um skattamál Jóns Ólafssonar og Jóns Ólafssonar & Co. sf. þykir mér undirrituðum rétt og nauðsynlegt að staðreyndir málsins eins og þær snúa að mér sem endurskoðanda komi fram. Af umfjöllun blaðsins má skilja að ég sitji á sakabekk skattrannsóknarstjóra, sem er fjarri öllum sannleika.
Rannsókn skattrannsóknarstjóra (SRS) snýr að Jóni Ólafssyni persónulega, Jóni Ólafssyni & Co sf. (JOCO), Norðurljósum samskiptafélagi hf. og dótturfélögum þess. Ásakanir skattrannsóknarstjóra á hendur mér eru í skýrslu sem fjalla um skattskil Jóns Ólafssonar & Co. sf. Í annari skýrslu um persónuleg skattskil Jóns Ólafssonar eru engar ásakanir í minn garð. Skýrslur frá sama aðila um Norðurljós samskiptafélag hf. og dótturfélög hafa ekki enn komið fram, en von er á þeim innan tíðar.
Skýrsla SRS um fyrirtækið JOCO snýst um eitt atriði, þ.e. sölu þess á hlutabréfum í Fjölmiðlun hf. (síðar Norðurljósum) á árinu 1998. Ásakanir SRS eru þær að sala hlutabréfanna hafi í reynd átt sér stað á árinu 1999 og að ég hafi rangfært bókhald og ársreikninga JOCO með því að færa sölu hlutabréfanna á árið 1998 en ekki árið 1999. Auk þess gerir skattrannsóknarstjóri athugasemdir við verðlagningu hlutabréfanna sem seld voru með formlegum samningi milli JOCO og fyrirtæksins Inuit Enterprises Ltd, (Inuit), sem er hlutafélag skráð á Bresku jómfrúareyjum og er í eigu Jóns Ólafssonar.
Gestur Jónsson, hæstaréttarlögmaður, sendi andmæli fyrir mína hönd til SRS 29. janúar s.l. Í andmælunum eru tilgreind sjö atriði sem studd eru skjölum sem sýna glögglega fram á að sala hlutabréfanna átti sér stað á árinu 1998. Þrjú af þessum sjö skjölum voru í vörslu skattrannsóknarstjóra við vinnslu rannsóknarinnar og var starfsmönnum embættsins í lófa lagið ganga úr skugga um innihald þeirra.
Meðal þeirra gagna sem lögð hafa verið fram eru:
Það er því mín niðurstaða að sýnt hafi verið fram á það með óyggjandi hætti að ásakanir SRS á hendur mér eigi ekki við rök að styðjast. Niðurstaða skattrannsóknarstjóra er fengin með rangtúlkunum á gögnum sem hann hefur kosið að taka tillit til í rannsókn sinni. Það er óásættanlegt að með þessum hætti sé vegið að starfsheiðri mínum sem löggilts endurskoðanda og um leið sé rýrð kastað á trausta ásjónu endurskoðunarskrifstofunnar KPMG.
Reykjavík 19. febrúar 2003
Símon Á. Gunnarsson
löggiltur endurskoðandi
KPMG
Yfirlýsingin frá KPMG er svohljóðandi:
Í Morgunblaðinu föstudaginn 14. febrúar sl. var fjallað ítarlega um skýrslur skattrannsóknarstjóra um rannsókn hans á skattamálum Jóns Ólafssonar og fyrirtækis hans Jóns Ólafssonar & Co. sf. (JOCO) Í þeirri umfjöllun er vegið harkalega að starfsheiðri Símonar Á. Gunnarssonar og hann sakaður um að hafa tekið þátt í að rangfæra bókhald, ársreikninga og skattframtöl JOCO án þess að andmælum hans hafi verið komið á framfæri.
Ásakanir skattrannsóknarstjóra á hendur Símoni snúast í þessari umfjöllun um að sala JOCO á eignarhlutum í Fjölmiðlun hf. hafi verið færð í bókhald og ársreikning á röngu ári og að ákvörðun um það hafi verið tekin eftir á.
Eftir að hafa skoðað skýrslu skattrannsóknarstjóra og þau gögn sem Símon hefur lagt fram með sínum andmælum er það niðurstaða okkar að þessar ávirðingar skattrannsóknarstjóra eigi ekki við rök að styðjast.
Reykjavík 19. febrúar 2003,
f. h. KPMG
Aðalsteinn Hákonarson, stjórnarformaður
Alexander Eðvardsson,
Sigríður Helga Sveinsdóttir,
Sæmundur Valdimarsson.