Steingrímur krefst fundar utanríkismálanefndar

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, hefur sent Sigríði Önnu Þórðardóttur formanni utanríkismálanefndar Alþingis bréf og óskað eftir fundi í nefndinni án tafar. Það sama hefur Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, gert.

Steingrímur segir að ástæða þessa sé einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar um stuðning við yfirvofandi árás Bandaríkjamanna og Breta á Írak, án undangengins samþykkis öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þessi ákvörðun sé tekin án nokkurs samráðs við utanríkismálanefnd. Segir Steingrímur niðurlægingu utanríkismálanefndar og Alþingis fullkomnast í því að fréttir af stuðningi Íslands verði opinberar þegar Bandaríkjastjórn birti lista yfir þau lönd sem þeim fylgja að málum.

Þá vísar Steingrímur í ummæli Halldór Ásgrímssonar utanríkisráðherra í fréttum Ríkisútvarpsins um að samráð hafi verið haft við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. „M.ö.o. afstaða Íslands er mótuð með bandaríska sendiherranum en lögskipað samráð við utanríkismálanefnd Alþingis er hundsað," segir Steingrímur.

Segir hann að þetta sé í annað sinn á skömmum tíma sem ákvörðun um meiriháttar stefnubreytingu eða ákvörðun um afstöðu Íslands til stóratburðar á heimsvísu sé tekin án nokkurs undangengins samráðs við utanríkismálanefnd. Fyrra tilvikið sé fundur NATO í Prag sl. haust. Athyglisvert sé að í báðum tilvikunum sé, auk pólitískrar stefnumótunar, um að ræða loforð um fjárframlög eða fjárhagslegar skuldbindingar. Nú sé lofað þátttöku við að reisa Írak úr rústum eftir eyðileggingu væntanlegrar styrjaldar. Mótmælir Steingrímur þessari framgöngu ríkisstjórnarinnar og telur hana skýlaust brot á lögum um þingsköp Alþingis.

Ítarefni um hernaðarundirbúning í Persaflóa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert