Bræður í fangelsi fyrir líkamsárás á Skeljagranda

Lögreglu- og sjúkraflutningsmenn á vettvangi árásarinnar.
Lögreglu- og sjúkraflutningsmenn á vettvangi árásarinnar. mbl.is/Júlíus

Bræðurnir tveir sem ákærðir voru fyrir alvarlega og sérstaklega hættulega líkamsárás gegn ungum manni á og við heimili þeirra að Skeljagranda í Reykjavík 2. ágúst í fyrrasumar voru dæmdir í tveggja ára og þriggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur rétt í þessu.

Kristján Markús Sívarsson hlaut þyngri dóminn eða fangelsi í hálft fjórða ár en bróðir hans Stefán Logi var dæmdur í tveggja ára fangelsi. Þyngri refsing Kristjáns Markúsar skýrist af því að var dæmdur í 16 mánaða fangelsi sumarið 2001 sem skilorðsbundið til fimm ára, en með líkamsárásinni rauf hann skilorðið og sá dómur því dæmdur upp.

Til frádráttar kemur gæsluvarðhaldsvist bræðranna sem setið hafa inni frá því þeir voru handteknir í kjölfar árásanna.

Faðir þeirra var grunaður um aðild að alvarlegri líkamsárásinni og sat í gæsluvarðhaldi í rúmlega einn mánuð en málið gegn honum var fellt niður.

Við þingfestingu málsins játuðu bræðurnir ákæru að hluta en neituðu öðru. Þeir voru einnig ákærðir fyrir líkamsárás á Eiðistorgi síðar sama dag og fleiri afbrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert