Truflanir eru á SMS skeytasendingum hluta viðskiptavina Og Vodafone. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu lýsa truflanirnar sér þannig að 20 til 30% SMS skeyta viðskiptavina félagsins, sem eru með símanúmer sem byrja á 69 og 66, skila sér ekki til móttakanda, þ.m.t. skeyti frá áskriftarþjónustu eins og úrslitaþjónustu o.fl. Segir félagið að unnið sé að lausn málsins með framleiðanda þeirrar símstöðvar sem vandamálið er bundið við.