370 nemendur við grunn- og framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands voru brautskráðir í dag, en athöfnin fór fram í Háskólabíói. Aldrei hafa fleiri kandídatar verið brautskráðir í einu frá skólanum.
Í grunndeild skólans hljóta kennarar í leik-, grunn- og framhaldsskólum, íþróttafræðingar, tómstunda- og félagsmálafræðingar og þroskaþjálfar menntun sína. 112 kandídatar voru brautskráðir með B.Ed.-gráðu í grunnskólakennarafræði, 49 luku B.S.-gráðu í íþróttafræði og 43 B.Ed.-gráðu í leikskólakennarafræði. Þá brautskráðust 19 kandídatar með B.A.-gráðu í þroskaþjálfun og 52 luku kennsluréttindanámi. Auk þess lauk 21 kandídat 45 eininga námi í leikskólafræði til diplómu. Úr grunndeild brautskráðust einnig 12 kennarar með 15–30 eininga viðbótarnám, segir í fréttatilkynningu frá KÍ. Þá voru í fyrsta sinn brautskráðir kandídatar með 45 eininga nám í tómstunda- og félagsmálafræði til diplómu, alls 14. Einnig voru í fyrsta skipti brautskráðir heyrnarlausir kandídatar frá íslenskum háskóla.
Þrír luku grunnskólakennaranámi með táknmálsfræði sem sérsvið. Í framhaldsdeild Kennaraháskóla luku 42 kandídatar Dipl.Ed.-prófi í uppeldis- og menntunarfræði með mismunandi áherslu, s.s. sérkennslu, stjórnun, nám og kennslu ungra barna, tölvu- og upplýsingatækni og þroskaþjálfun. Sex kandídatar luku meistaranámi í uppeldis- og menntunarfræði (M.Ed.-gráðu), þ.e. 60 eininga rannsóknartengdu framhaldsnámi.
Í ávarpi sínu við brautskráningarathöfnina gerði dr. Ólafur Proppé rektor skipulag háskólastigsins að umtalsefni og sagði meðal annars: “Það má sannarlega segja að það ríki mikil gróska á háskólastiginu um þessar mundir. Sumir segja að gróskan sé svo mikil að nú sé tímabært að grisja garðinn, hefja markvissara ræktunarstarf. Menn tala um að það sé hollt að innleiða samkeppni í starf háskóla. Þannig muni gæðin aukast og fjölbreytnin vaxa. Eitthvað er til í þessu. En í litlum garði, og Ísland er einungis lítill garður í samanburði við nánast öll lönd í heiminum, þarf að skipuleggja ræktunarstarfið af hugkvæmni, skynsemi og alúð til þess að fjölbreytni og gróska fái notið sín og heildarárangurinn verði sem mestur og bestur. Heilbrigð samkeppni og samvinna þurfa að fara saman innan ramma heildarstefnu með hag samfélagsins í huga. Ísland er svo lítið land að lögmál samkeppninnar eitt og sér nær vart að laða fram nauðsynlega fjölbreytni og ásættanleg gæði í starfsemi háskóla. Það má t.d. spyrja um réttmæti þess að bjóða lögfræði- eða viðskiptafræðinám í mörgum háskólum í staðinn fyrir að bjóða nemendum fjölbreyttari námstækifæri. Samkeppni er jákvæð og eftirsóknarverð, en samstarf og skynsamleg verkaskipting er líka nauðsynleg.”
Rektor sagði tímabært að sameina alla ríkisháskólana undir einu merki, eins konar regnhlíf, þar sem skólar og deildir gætu haldið verulegu sjálfstæði innan einnar stofnunar undir nafni Háskóla Íslands. “Ég tel tímabært að sameina Háskóla Íslands, Kennaraháskólann, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskólann og Tækniháskólann og endurskipuleggja þessa skóla til að úr verði enn öflugri háskóli til að þjóna enn betur íslenskri þjóð og til að standa enn betur að vígi í samskiptum við hið alþjóðlega háskólasamfélag.” sagði dr. Ólafur Proppé rektor Kennaraháskóla Íslands í ræðu sinni.