Sá einstaki atburður átti sér stað á Fáskrúðsfirði í gær að afkomandi eins af frönsku sjómönnunum, sem reru við Íslandsstrendur fyrr á öldum, fann leiði afa síns, sem hvarf fyrir mörgum áratugum síðan, í franska grafreitnum þar í bæ.
Fjölskylda sjómannsins franska hefur til þessa ekki vitað með vissu hver örlög hans urðu, önnur en þau að hann hélt í Íslandssiglingu á franskri skútu og fórst í túrnum, annaðhvort við strendur Nýfundnalands eða Íslands.
Í skoðunarferð í franska grafreitinn á Fáskrúðsfirði sá afkomandi franska sjómannsins nafn afa síns skráð á nafnaplötu, en þar hefur hann verið jarðsettur ásamt fjölda annarra franskra sjómanna.
Afkomandinn var í hópi 42ja franskra siglingakappa sem komu til Íslands í tengslum við „Skippers d´Islande 2003“ sem er kappsigling á skútum milli Frakklands og Íslands. Hópurinn óskaði sérstaklega eftir því að fá að koma til Fáskrúðsfjarðar, en þar er að finna margskonar minjar um veiðar franskra skútusjómanna hér við land.
Frá þessu segir á vefsíðu Fáskrúðsfjarðar á Netinu í dag.