Byggðasafn Vestfjarða og Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti fengu í dag afhent skipið Maríu Júlíu, sem er fyrsta björgunarskip Vestfirðinga. Skipinu er ætlað að verða fljótandi safn í framtíðinni.
Hér er um happafeng fyrir safnið að ræða, að því er fram kemur á Patreksfjarðarvefnum á Netinu. María Júlía er 160 brúttótonna eikarskip, smíðað í Danmörku 1950 sem björgunarskip Vestfirðinga. Láta mun nærri að María Júlía hafi bjargað um 2.000 manns.
Skipið hefur verið í eigu útgerðarfélagsins Þórsberg en forsvarsmenn afhentu safni Egils Ólafssonar það í morgun. Ætlunin er að gera það upp og færa í upprunalegt horf. María Júlía var um árabil í þjónustu Landhelgisgæslunnar, eða til ársins 1963. Kom það því við sögu við útfærslu landhelginnar tvisvar.