Skemmdir unnar á myndum Arthus-Bertrands á Austurvelli

Myndir Yann Arthus-Bertrands á Austurvelli.
Myndir Yann Arthus-Bertrands á Austurvelli. mbl.is/Jim Smart

Skemmdarverk hafa verið unnin á nokkrum ljósmyndum er hafa verið til sýnis á Austurvelli í sumar undir heitinu „Jörðin séð frá himni“. Taka þurfti niður fimm myndir í gær þar sem krotað hafði verið á þær. Telja aðstandendur sýningarinnar að skemmdarverkin hafi valdið mörg hundruð þúsunda króna tjóni.

Til sýnis hafa verið ljósmyndir sem franski ljósmyndarinn Yann Arthus-Bertrand hefur tekið úr lofti víðs vegar um heim, m.a. á Íslandi. Skemmdir hafa einnig verið unnar á stóru alheimskorti sem sett var upp vegna sýningarinnar.

Umsjónarmenn sýningarinnar, Stine Norden og Sören Rud hjá Fotoselskapet Jorden í Danmörku, eru miður sín vegna þessa, en þau hafa séð um fjölmargar sýningar á myndum Bertrands á Norðurlöndunum án þess að verða vör við spellvirki af þessu tagi.

„Við höfum fengið mjög góðar undirtektir bæði frá ferðamönnum og Reykvíkingum en haldi skemmdarverkin áfram verðum við að vega það og meta hvort það sé þess virði að hafa sýninguna áfram í Reykjavík,“ segja þau.

Áætlað er að sýningin verði á Austurvelli til 21. september nk. en verði hún tekin niður er það í fyrsta sinn sem hætta þarf sýningu á verkum Bertrands á undan áætlun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert