Vilja að hafin verði vinna við endanlegt skipulag Heiðmerkur

Frá Heiðmörk.
Frá Heiðmörk. mbl.is/Ásdís

Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær ályktun þar sem þeim tilmælum er beint til Skipulags- og bygginganefndar Reykjavíkur, að nú þegar verði hafin vinna að endanlegu skipulagi Heiðmerkur, sem útivistar- og vatnsverndarsvæðis Reykjavíkur og nágrannabyggða.

Þau tilmæli eru í ályktuninni, að við skipulagið verði tekið mið af því, að svæðið hafi að geyma einhver stærstu náttúrverðmæti borgarinnar, sem sé neysluvatn borgarbúa og nágrannasveitarfélaganna. Jafnframt að svæðið sé stærsta útivistarsvæðið við borgina og mikið notað af íbúum hennar. Við skipulagið verði hugað sérstaklega að þeim framkvæmdum, sem nauðsynlegar séu til að þjóna tilgangi svæðisins sem vatnsverndar- og útivistarsvæðis, ökuleiðum um svæðið, þ.á m. hvort heppilegt verði að loka fyrir hringakstur um svæðið, gönguleiðum um svæðið og leyfðum ökuhraða með tilliti til útivistar- og vatnsverndarsjónarmiða. Þá verði sérstakt tillit tekið til aðkomu fatlaðra að svæðinu.

Einnig er mælst til þess að við skipulagsvinnuna verði haft samráð við nágrannasveitarfélögin og aflað umsagna þeirra aðila, sem koma að nýtingu svæðisins, svo sem skógræktarfélaga, Bláfjallanefndar, Orkuveitu Reykjavíkur, Vatnsveitu Hafnarfjarðar og Vatnsveitu Kópavogs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert