Fjölskylda Halldórs Laxness hefur sent frá sér yfirlýsingu, þar sem kemur fram að meðan verið sé að fara í gegnum bréfasafn Halldórs, sem geymt er í Þjóðarbókhlöðunni, telji hún eðlilegt að bréfasafnið sé lokað fyrir óviðkomandi. Þessi vinna taki tíma og sé vandmeðfarin og því eðlilegt að fjölskyldan fái næði til þess að ljúka verkinu, en þurfi ekki að stjórnast af ævisagnariturum.
Yfirlýsingin er eftirfarandi:
Að gefnu tilefni vill fjölskylda Halldórs Laxness að eftirfarandi komi fram:
Síðast liðið eitt og hálft ár hefur verið unnið að því á vegum okkar og útgáfu Halldórs Laxness að fara í gegnum bréfasafn Halldórs á Handritadeild Þjóðarbókhlöðunnar. Meðan verið er að fara í gegnum safnið teljum við eðlilegt að því sé lokað fyrir óviðkomandi, eins og áréttað var með bréfi þann 18. september síðastliðinn.
Handrit Halldórs sem fyrir eru á safninu er að sjálfsögðu heimilt að skoða sem fyrr, en um birtingu óprentaðs efnis gilda lög um höfundarrétt. Þessi vinna tekur tíma og er vand með farin og því eðlilegt að við fáum næði til þess að ljúka verkinu, en að þurfa ekki að stjórnast af ævisagnariturum. Fjölskylda Halldórs Laxness