Landsbókasafni ber að virða tilmæli um bréf Halldórs Laxness

Í lögfræðiáliti, sem Landsbókasafn Íslands Háskólabólasafn hefur aflað sér um réttarstöðu Landsbókasafns varðandi aðgang að bréfasafni Halldórs, kemur fram sú niðurstaða að safninu beri að virða tilmæli Auðar Laxness um aðgangstakmarkanir að þeim hluta bréfasafns Halldórs sem inniheldur gögn sem stafa frá honum sjálfum.

Öðru máli gegni hins vegar um bréf annarra til Halldórs. Samkvæmt lögfræðiálitinu er Auður Laxness ekki talin hafa neina sérstaka hagsmuni sem heimila henni einhliða að setja skilyrði um meðferð persónulegra gagna Halldórs er stafa frá öðrum en honum sjálfum. Er því talið að safnið hafi ekki heimild til að hlíta fyrirmælum Auðar að því er varðar þennan hluta bréfasafnsins.

Erla S. Árnadóttir hrl., sem gerði lögfræðiálitið, kemst að þeirri niðurstöðu að afhending persónulegra gagna Halldórs Laxness til safnsins með afhendingarbréfi Auðar Laxness 1996 og með gjafabréfi frá 2002, hafi falið í sér að stofnunin hafi öðlast heimildir einkaréttar yfir bréfasafninu og tekist á hendur lögbundnar skyldur um varðveislu þess og meðferð.

Sem höfundarréttarhafi að verkum Halldórs og sem aðili málssóknarinnar vegna reglna um friðhelgi einkalífs og persónuvernd, hafi Auður hagsmuni af meðferð þess hluta gagnanna sem stafa frá Halldóri sjálfum.

Með því að gera þann hluta gagnanna, sem stafa frá Halldóri sjálfum og ekki höfðu verið birt áður, aðgengilegan almenningi til skoðunar, telur Erla að þessi gögn hafi verið birt í skilningi höfundarlaga.

Segist Erla telja að Landsbókasafni Íslands - Háskólabólasafni, beri að virða tilmæli Auðar um aðgangstakmarkanir að þeim hluta bréfasafns Halldórs sem inniheldur gögn sem stafa frá honum sjálfum, eins og þau eru sett fram í bréfi Auðar frá 18. september 2003. Þar fer Auður fram á að ekki verði óheftur aðgangur að bréfum, skjölum og minnisbókum Halldórs Laxness, að minnsta kosti þar til afkomendur hans hafi kynnt sér innihald þeirra en þetta fyrirkomulag skuli þó ekki vara lengur en í þrjú ár.

Þá telur Erla, að á meðan almenningur hafi aðgang að persónulegum gögnum, sem stafa frá Halldóri Laxness, sé safninu heimilt að heimila einstaklingum að taka eintök af þeim til einkanota. Hins vegar sé safninu ekki skilyrðislaust skylt að heimila slíka einkagerð í öllum tilfellum.

Einnig segir Erla að varhugavert sé fyrir safnið að líta á gögn í bréfasafni Halldórs, sem safa frá öðrum en honum sjálfum, sem birt í skilningi höfundarlaga nema fyrir liggi ótvíræð heimild frá höfundum eða öðrum rétthöfum gagnanna til að gera þau aðgengileg almenningi. Af því leiði, að varhugavert sé að líta á að eintakagerð til einkanota sé heimil án samþykkis höfundarréttarhafa varðandi þessi gögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert