Hópur fjárfesta hefur keypt fasteignina Eyrarveg 2 á Selfossi þar sem Hótel Selfoss er til húsa. Hótelreksturinn hefur verið færður í hendur á rekstrarfélaginu Brúnási ehf. sem er að mestu í eigu sömu aðila, en stærstu eigendur eru Gísli Steinar Gíslason, Ólafur Auðunsson og Jón Gunnar Aðils. Seljandi fasteignarinnar er þrotabú eignarhaldsfélagsins Brúar hf. Fyrrum rekstraraðili hótelsins var Kaupfélag Árnesinga sem þar með hættir öllum afskiptum af hótelinu.
Fram kemur í tilkynningu, að hótelið verði lokað í um tvo mánuði þar sem farið verður í framkvæmdir til að bæta veitingaaðstöðu og afþreyingarmöguleika á hótelinu. Það verði opnað aftur 15. janúar á næsta ári.
Rekstrarfélag hótelsins hefur gert samstarfssamning við Flugleiðahótel hf. um viðskiptasérleyfi sem felur í sér að hótelið verður hluti af Icelandair Hotels keðjunni, sem er keðja 8 hótela víðsvegar um landið. Flugleiðahótel hf. munu sjá um markaðsfærslu Hótels Selfoss undir vörumerkinu Icelandair Hotels en hótelið verður rekið af rekstrarfélaginu Brúnási ehf. eftir fyrirmynd og gæðakröfum Icelandair Hotels keðjunnar.
Haft er eftir Gísla Steinari Gíslasyni í tilkynningunni, að verið sé að ganga frá ráðningu á hótelstjóra og yfirmatreiðslumanni hótelsins, en það sé forgangsatriði að tryggja hótelinu gott starfsfólk. Segir hann að stjórnendur hótelsins muni einbeita sér að ráðstefnum, veislum og árshátíðum fram á vorið en síðan taki við hefðbundin ferðaþjónusta í sumar.