Háhyrningurinn Keikó, sem veiddur var við Ísland á sínum tíma og dvaldi í Vestmannaeyjum í nokkur ár, er allur. Svo virðist sem háhyrningurinn hafi fengið bráða lungnabólgu og hann drapst í Taknesbugt í Noregi síðdegis í gær. Að sögn Dane Richards, eins af gæslumönnum Keikós, sýndi háhyrningurinn merki um lasleika á fimmtudag, hann var lystarlítill og daufur og öndunin var ójöfn en sjúkdómurinn ágerðist hratt og um klukkan 16 var Keikó allur. Hann varð 27 ára en meðalaldur villtra háhyrninga er um 35 ár.
Keikó, sem þýðir Hinn heppni á japönsku, var veiddur nálægt Íslandi árið 1979 og seldur í sædýrasafn. Háhyrningurinn öðlaðist heimsfrægð þegar hann „lék" í kvikmyndinni Free Willy og árið 1993 hófst herferð fyrir því að frelsa Keikó, sem þá var í sædýrasafni í Mexíkóborg og heldur bágur til heilsunnar. Háhyrningurinn var fluttur í sædýrasafn í Oregon þar sem hann fór í endurhæfingu og árið 1998 var hann fluttur með herflugvél til Vestmannaeyja til að undirbúa hann undir frelsið í hafinu. Þar var honum kennt að veiða og einnig var honum sleppt úr kví sinni í Klettsvík í þeirri von að hann myndi hitta aðra háhyrninga og blanda geði við þá. Talið er að þessar aðgerðir hafi kostað um hálfa milljón dala á mánuði eða um 38 milljónir.
Í júlí á síðasta ári lagði Keikó í leiðangur frá Vestmannaeyjum og í ágústlok birtist hann í Halsa í Noregi, Norðmönnum til mikillar ánægju. Börn kepptust um að leika við hann og ferðamenn flykktust til að skoða dýrið. Keikó var síðan fluttur til Taknesbugtar í nágrenninu og þar dvaldi hann síðan. Fjórir gæslumenn sinntu hvalnum, sáu honum fyrir fæðu og fóru með hann í sundtúra um nágrennið.
David Phillips, framkvæmdastjóri Free Willy-Keiko stofnunarinnar, sagði að örlög Keikós hefðu haft mikil áhrif á almenningsálit og breytt skoðun manna á því hvort hægt væri að sleppa hvölum sem verið hafa í sædýrasöfnum. Segir hann að Keikó hafi vakið athygli heimsins hvar sem hann var, hvort það var í Mexíkó, Oregon eða á Íslandi.
Phillips segir ekki ljóst hvort Keikó verði grafinn á landi eða verði sökkt í sæ en ræða þurfi við norsk stjórnvöld um það. Phillips segir að hann vilji helst láta grafa hvalinn á landi en þá væri síðar hægt að fjarlægja beinagrind hans og hugsanlega koma henni fyrir á safni.