Seløy fær ekki veð í Guðrúnu

Guðrún Gísladóttir KE sekkur í Nappastraumen við Norður-Noreg.
Guðrún Gísladóttir KE sekkur í Nappastraumen við Norður-Noreg. mbl.is

Norska björgunarfyrirtækið Seløy Undervansservice fékk ekki lögtak í fjölveiðiskipinu Guðrúnu Gísladóttir KE-15, sem liggur á hafsbotni við Lófót í Norður-Noregi. Hafnaði héraðsdómur í Lófót kröfu félagsins um veð í skipinu vegna tugmilljóna íslenskra króna skulda íslenskra aðila sem fengu Seløy til þess að freista björgunar skipsins.

Niðurstaða réttarins var að Seløy hefði ekki unnið að björgun skipsins fyrir Festi, upphaflega eigendur þess, en því stefndi björgunarfélagið í málinu. Festi hefði selt skipið eftir að það sökk öðrum aðilum og því væri ekki hægt að fá lögtak í skipinu með útgerðarfélagið sem gerðarþola.

Seløy lagði út um 7,5 milljónir norskra króna vegna björgunarstarfsins fyrir Íshúsfélag Njarðvíkur og GGKE15-hópinn en hafði, að sögn lögmanns félagsins, einungis fengið tvo reikninga af 15 greidda er hinir íslensku björgunaraðilar hefðu gefist upp á björgun skipsins.

Björgun Guðrúnar er að nýju á ábyrgð Festi, samkvæmt norskum sjóferðareglum, og freistaði Seløy að endurheimta útlagðan kostnað með veði í skipinu. Tapaði það hins vegar máli sínu í gær og var dæmdt til að borga 27.000 norskar krónur í málskostnað. Íhugar félagið að áfrýja úrskurðinum til æðra dómsstigs.

Guðrún Gísladóttir sökk eftir að hún sigldi upp á sker í Nappstraumen milli Vestvågøy og Flakstad í Lófót, skammt frá bænum Ballstad. Þangað var ferð skipsins heitið með fullfermi af frystum síldarflökum er það sökk. Liggur Guðrún á 40 metra dýpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert