Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hefur hafið heimildasöfnun vegna ritunar ævisögu Hannesar Hafstein á vegum Eddu útgáfu hf., en stefnt er að því að bókin komi út haustið 2005. Í ár eru 100 ár liðin frá því Íslendingar fengu heimastjórn og innlendan ráðherra með búsetu á Íslandi, en Hannes Hafstein var fyrsti íslenski ráðherrann.
Guðjón segir að vegna þessa verði Hannes mikið í sviðsljósinu á árinu, hann hafi heyrt af áhuga margra, ekki síst afkomendum Hannesar, á að ráðist yrði í ritun ævisögu ráðherrans og því hafi hann ákveðið að skrifa ævisögu hans.
"Ég er byrjaður á fullu í heimildarvinnu," segir Guðjón og segist reikna með að sagan verði skráð í eitt bindi. Hann gerir meðal annars ráð fyrir að fara í heimildasöfnun til Kaupmannahafnar á árinu og segir að bókin verði unnin á svipaðan hátt og fyrri ævisögur sínar.
Þess skal getið að á árunum 1961-64 kom ævisaga Hannesar Hafstein eftir Kristján Albertsson út í þremur bindum hjá Almenna bókafélaginu.