"Greinargerðin svarar því sjálf að því er mig varðar," segir Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, um ummæli dr. Hannesar H. Gissurarsonar varðandi vinnubrögð sín í greinargerðinni, sem Hannes lagði fram í fyrradag. "Hann er ásakaður fyrir að nota texta annarra manna án þess að vitna til þeirra en ég geri það náttúrulega ekki enda ásakar hann mig ekki fyrir það."
Hannes segir meðal annars í greinargerð sinni að Guðjón, eins og margir aðrir, sviðsetji ýmislegt í ævisögum Jónasar Jónssonar frá Hriflu og Einars Benediktssonar. Hann nefnir nokkur dæmi úr fyrsta bindi ævisögu Einars, þar sem gæsalappir séu ekki notaðar, þó textinn sé tekinn frá öðrum og umskrifaður enda sé vísað til heimilda.
Guðjón segir að þegar svona verk séu unnin og höfundur rekist á klausur sem hann vilji nota séu til þess þrjár aðferðir. Í fyrsta lagi að hafa orðrétt eftir innan gæsalappa "og það geri ég í langflestum tilfellum," segir hann. "Einstaka sinnum endursegi ég efnið og vísa þá til heimildarinnar. Þriðja aðferðin er að vísa til hennar í textanum sjálfum, eins og þessi og þessi segir í bók sinni. Það er frekar undantekning hjá mér að ég endursegi svona, þó þessi dæmi Hannesar séu til vitnis um annað, og ég er frekar undrandi á því að hann skuli vera að draga mig inn í þessar umræður, en mér finnst það vera tilraun til að dreifa athyglinni. Hann gefur í skyn að ég noti nákvæmlega sömu aðferðir og hann. Ég ætla ekki að dæma hans bók enda hef ég ekki lesið hana með þennan samanburð í huga en ég tel mig ekki vera sekan um það sem hann er ásakaður um, að gera annarra manna texta að sínum án þess að vitna til þeirra. Ég nota aldrei heimildir án þess að vitna til þeirra."