Reyndi að hafa dóminn málefnalegan

Í greinargerð sinni segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson ritdóm sem Gauti Kristmannssson flutti í Víðsjá 22. desember hafa verið "illskeyttan". Þessu hafnar Gauti og segist einmitt hafa lagt sig fram um að vera málefnalegur og láta alla pólitík lönd og leið. Hann bendir á að Hannes segi það eitt efnislega um dóminn að hann hafi verið "illskeyttur" en tilfæri engin dæmi því til stuðnings. Það sé skrýtið þar sem Hannes hafi boðað að hann myndi svara gagnrýnisatriðum lið fyrir lið.

"Ég reyndi að hafa hann eins málefnalegan og ég gat vegna þess að ég vissi að þetta væri mjög alvarlegt mál. Ég held að menn sjái það ef menn lesa dóminn að hann er málefnalegur. Ég reyndi að kúpla allri pólitík út úr honum og fara í efnið," segir Gauti.

Gerði alvarlega fyrirvara

Í ritdómi Gauta sagði m.a.: "Það er klárlega rétt að hér hefur verið safnað saman miklum fróðleik um fyrstu þrjátíu árin í ævi Halldórs og er auðvitað fengur að því. Spurningin er hins vegar hvernig þessum fróðleik er safnað saman og hvernig gengið er frá honum í fræðiriti. Það er kannski rétt að rifja upp nokkrar grundvallarreglur í þessu samhengi: 1) Þegar menn nota texta annars manns skal það auðkennt; oftast nota menn þá gæsalappir eða draga textann inn og nota smærra letur. 2) Þegar menn nota texta annars manns skal einnig vísað til þess um hvaða verk er að ræða, hvenær það kom út og á hvaða blaðsíðu hinn tilvitnaði texti er. 3) Þessi aðferð þarf að vera kerfisbundin eða samræmd þannig að eins sé farið að með allar tilvitnanir. 4) Þegar menn nota texta annars manns skal nota hann óbreyttan. Þetta eru reglur sem ég hélt að ekki þyrfti að ræða þegar fjallað er um fræðirit eftir háskólaprófessor, en skömmu eftir að ég hóf lesturinn komu á mig alvarlegar vöflur. Bæði fannst mér stíllinn dálítið ójafn og ýmislegt kom mér kunnuglega fyrir sjónir." Síðan tilfærir Gauti í dóminum dæmi um hvernig Hannes taki upp texta nánast orðréttan úr minningarbókum Laxness og segir "Ég hlýt því að gera alvarlega fyrirvara um heimildanotkun og heimildaskilning Hannesar...." Gauti segist einnig hafa rætt eftirmála bókar Hannesar sem Hannes hafi ítrekað sagt á miðvikudaginn að enginn hefði athugað. "Ég fór inn á alla þessi hluti sem Hannes nefndi."

Í greinargerðinni segir Hannes það einnig hljóta að vera einsdæmi að dómur Gauta hafi sérstaklega verið boðaður í fréttum hljóðvarpsins næstu klukkutíma á undan. "Sjónvarpsmenn komu líka í hljóðklefa og kvikmynduðu Gauta að flytja dóminn. Síðan var sérstök frétt í Sjónvarpinu um kvöldið um, að Gauti hefði í dómi sínum gagnrýnt mig harðlega. En er einn harður dómur um bók stórfrétt fyrir sjónvarp?" segir Hannes.

Gauti segir það auðvitað ekki vera sitt að svara fyrir fréttastjórn á Ríkisútvarpinu.

"Ég lét stjórnanda þáttarins vita að þetta væri alvarlegur og harður dómur. Málið var þess eðlis að ég taldi rétt að hann vissi það. En hann fékk hins vegar ekki að heyra dóminn fyrr en hann var fluttur. Og væntanlega hefur hann talað við fréttamenn, ég giska á það," segir Gauti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert