Í greinargerð sinni segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson ritdóm sem Gauti Kristmannssson flutti í Víðsjá 22. desember hafa verið "illskeyttan". Þessu hafnar Gauti og segist einmitt hafa lagt sig fram um að vera málefnalegur og láta alla pólitík lönd og leið. Hann bendir á að Hannes segi það eitt efnislega um dóminn að hann hafi verið "illskeyttur" en tilfæri engin dæmi því til stuðnings. Það sé skrýtið þar sem Hannes hafi boðað að hann myndi svara gagnrýnisatriðum lið fyrir lið.
"Ég reyndi að hafa hann eins málefnalegan og ég gat vegna þess að ég vissi að þetta væri mjög alvarlegt mál. Ég held að menn sjái það ef menn lesa dóminn að hann er málefnalegur. Ég reyndi að kúpla allri pólitík út úr honum og fara í efnið," segir Gauti.
Í greinargerðinni segir Hannes það einnig hljóta að vera einsdæmi að dómur Gauta hafi sérstaklega verið boðaður í fréttum hljóðvarpsins næstu klukkutíma á undan. "Sjónvarpsmenn komu líka í hljóðklefa og kvikmynduðu Gauta að flytja dóminn. Síðan var sérstök frétt í Sjónvarpinu um kvöldið um, að Gauti hefði í dómi sínum gagnrýnt mig harðlega. En er einn harður dómur um bók stórfrétt fyrir sjónvarp?" segir Hannes.
Gauti segir það auðvitað ekki vera sitt að svara fyrir fréttastjórn á Ríkisútvarpinu.
"Ég lét stjórnanda þáttarins vita að þetta væri alvarlegur og harður dómur. Málið var þess eðlis að ég taldi rétt að hann vissi það. En hann fékk hins vegar ekki að heyra dóminn fyrr en hann var fluttur. Og væntanlega hefur hann talað við fréttamenn, ég giska á það," segir Gauti.