"Það er ekki nóg að vera með almennar tilvísanir fremst eða aftast í verki. Mér sýnist verk Hannesar vera á mörkunum," sagði Guðjón Friðriksson sagnfræðingur á blaðamannafundi sem Reykjavíkurakademían efndi til um hvað ættu að teljast góð vinnubrögð og hvað ekki við ritun ævisagna, m.a. með hliðsjón af deilunni um fyrsta bindi ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Halldór Laxness.
Auk Guðjóns sátu fyrir svörum rithöfundarnir Þórunn Valdimarsdóttir og Viðar Hreinsson.
Þórunn sagðist fagna því að það virtist sem þjóðin öll væri nú farin að skynja að bók væri ekki flatur veruleiki heldur að á bak við hverja einustu bók væru innviðir. Fólk hefði orðið menntunargreind til þess að skoða tilvísanir og reyna að skilja og greina innviði allra bóka sem skrifaðar væru.
Viðar Hreinsson sagðist geta tekið undir með Guðjóni Friðrikssyni hvernig hann teldi eðlilegt að fara með heimildir. Hann sagðist sjálfur ekki telja ástæðu til þess að gera mikinn greinarmun að þessu leyti á því hvort fræðirit væri ætlað öðrum fræðimönnum eða almenningi. Sagði hann það vera skyldu bæði við lesendur og fræðaheiminn að verk væru gagnsæ að því er varðaði notkun heimilda. "Það er aldrei réttlætanlegt að taka frá höfundi án þess að merkja það nákvæmlega."
Á fundinum var Hannes og gagnrýndur fyrir að setja ekki fram nýja túlkun heldur nota túlkun annarra. "Þetta var markviss aðferð, ég vil leyfa lesandanum að túlka. Þetta er enn eitt fjölmiðlafárið, núna er ég fórnarlambið og það verður bara að hafa það," sagði Hannes.