Hannes Hólmsteinn Gissurarson svarar gagnrýni Helgu Kress á fyrsta bindi ævisögu sinnar um Halldór Laxness í Lesbók í dag og segir að dylgjur Helgu um ritstuld sinn eigi ekki við nein rök að styðjast. Ennfremur segir hann að það hefði óneitanlega "verið viðkunnanlegra, að Helga Kress hefði sagt hreinskilnislega frá því, að hún ætti beinna hagsmuna að gæta í málinu," þegar hún skrifaði dóminn.
Hannes segir að Helga hafi um nokkurt skeið verið að vinna að riti um Halldór Kiljan Laxness og telji eflaust að hann taki í bók sinni að einhverju leyti af henni umræðuefnið. Hannes segir og að Helga sé annar tveggja manna, sem hafa sérstakt leyfi fjölskyldu Laxness til að skoða bréfasafn hans. "Hún er því í raun ekki sjálfstæður fræðimaður, óháður fjölskyldu Laxness (eins og ég er), og kann það að skýra ýmislegt í gagnrýni hennar," segir Hannes.
Hannes segir í greininni að Helga hafi gerst sek um furðulega ónákvæmni í gagnrýni sinni. Ennfremur segir hann að hin harða árás Helgu Kress og nokkurra annarra úr hinum þrönga hóp vinstri sinnaðra bókmenntafræðinga á bók sína leiði athyglina frá aðalatriði málsins sem sé spurningin um það hvernig eigi að skrifa ævisögu.
Gagnasafn Mbl: SAGNFRÆÐI OG SAGNLIST