Búið að bjarga sjúklingi úr sjúkrabíl

Fólki á Egilsstöðum og nágrenni er ráðlagt að halda sig …
Fólki á Egilsstöðum og nágrenni er ráðlagt að halda sig innan dyra í dag. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Búið er að bjarga fólki úr sjúkrabíl sem stóð fastur í skafli við Teigsbjarg, um 50-60 km frá Egilsstöðum, frá því í gærkvöldi. Þrettán stiga frost var orðið inni í bílnum. Hann er nú kominn að Kárahnjúkum og hefur læknir skoðað sjúklinginn. Hann er ekki eins alvarlega veikur og talið var og verður því ekki fluttur til Egilsstaða.

Samband hefur náðst við þá 24 menn við Kárahnjúka sem ekki skiluðu sér í hús í nótt. Þeir eru nú allir komnir inn í hús nema tveir menn á vinnuvélum en það væsir þó ekki um þá. Engum mannanna varð meint af.

Þá hafa fundist tveir bílar sem voru ófundnir eftir að hafa ekið frá samkomuhúsi í Hjaltastaðaþinghá í nótt. Allir þorrablótsgestirnir hafa skilað sér í hús og er verið að flytja fólkið úr samkomuhúsinu og til byggða.

Þá er fundinn flutningabíll sem saknað var á Mývatnsöræfum. Ökumann sakaði ekki.

Enn er vont veður á Egilsstöðum og nágrenni og beina björgunarsveitarmenn þeim tilmælum til fólks að halda sig innan dyra áfram, að sögn Stefáns Guðmundssonar, fulltrúa svæðisstjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert