Hæstiréttur sýknar Ástþór Magnússon

Hæstiréttur hefur sýknað Ástþór Magnússon af ákæru fyrir að hafa dreift í tölvupósti á síðasta ári til fjölda viðtakenda tilhæfulausri viðvörun um sprengjutilræði gegn íslenskri flugvél, sem var til þess fallin að vekja ótta um líf, heilbrigði og velferð manna.

Ríkissaksóknari ákærði Ástþór og taldi viðvörunina, sem send var í nóvember 2002 til um 1200 aðila, varða við 120. grein hegningarlaga þar sem segir: Nú veitir maður vísvitandi rangar upplýsingar eða lætur uppi vísvitandi rangar tilkynningar, sem eru fallnar til að vekja ótta um líf, heilbrigði eða velferð manna, um atriði sem varðar loftferðaröryggi eða öryggi í flughöfn varðar það sektum eða fangelsi allt að þremur árum. Sömu refsingu varðar að útbreiða þess háttar orðróm gegn betri vitund.

Hæstiréttur vísar til framburðar Ástþórs í yfirheyrslu hjá lögreglu og skýrslu, sem hann gaf, en þar sagðist hann hafa byggt efni viðvörunarinnar sem hann sendi á innsæi og upplýsingum víðsvegar að, til dæmis frá fréttastofum. Sagði hann jafnframt að verið gæti að upphaf textans, þar sem fram fjallað væri um „rökstuddan grun“ um að ráðist yrði á íslenska flugvél með flugráni eða sprengjutilræði, væri óheppilegt. Sagðist Ástþór hafa trúað því að íslenskum flugvélum hafi stafað raunveruleg hætta af flugránum eða sprengjutilræðum og því talið nauðsynlegt að senda tölvupóstinn til að vara við þeirri hættu. Hann hafi engan ásetning haft til að senda vísvitandi ranga aðvörun og benti á að aðvörunin hafi verið almenns efnis og ekki beint gegn tilteknu flugi.

Hæstiréttur taldi að þegar framburður Ástþórs og orðalag viðvörunarinnar væri virt þætti ekki fram komin lögfull sönnun þess að með Ástþóri hafi búið sá ásetningur sem áskilinn væri í hegningarlögum og því bæri að sýkna hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert