„Veðrið hefur tafið okkur, en nú er að vora og við sjáum fram á betri tíð,“ sagði Hans Mastermo framkvæmdastjóri Seløy Undervannsservice sem freistar þess að bjarga fjölveiðiskipinu Guðrúnu Gísladóttur af hafsbotni við Lófót í Noregi. Hann kvaðst vænta þess að skipið næðist upp ekki seinna en um og upp úr páskum.
Mastermo sagði við Fréttavef Morgunblaðsins að starfsmenn Seløy hefðu stöðugt unnið á vettvangi að undirbúningi björgunar Guðrúnar undanfarið en óhagstætt veður hefði þó sett stórt strik í reikninginn.
„Góðviðrisdögunum fjölgar stöðugt eftir því sem vorar betur. Það er erfitt að segja til um hvenær við getum hugsanlega reynt að lyfta skipinu upp í yfirborðið, vonandi er ekki langt í það. Og við gerum okkur vonir um að það verði hægt í síðasta lagi upp úr páskum,“ sagði Mastermo.
Í samtalinu sneri hann hlutverkum við og spurði hvað væri að frétta af íslenska togaranum sem rekið hefði upp í fjöru við suðurströndina, en þar átti hann við Baldvin Þorsteisson EA. Fannst honum tilkomumikið að heyra að hann hefði náðst út og væri kominn til Noregs til viðgerðar.