"Það kemur mér á óvart og mér þykir miður að Helga Kress skuli lauma einhverri óbirtri skýrslu um mig í fjölmiðla, áður en hún kynnir mér hana sjálf. Þetta er líklega brot á siðareglum háskólans," segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands, um greinargerð sem Helga Kress, prófessor við HÍ, hefur unnið um vinnubrögð Hannesar við ritun fyrsta bindis ævisögu Halldórs Laxness.
,,Ég hef hins vegar í dag lesið þessa skýrslu og hún bætir engu nýju við það sem áður hefur komið fram og svör mín við gagnrýni Helgu áður standa enn," segir hann.
"Hitt er annað mál að það er virðingarvert af Helgu að skrifa 220 blaðsíðna bók um mig og legg ég til að hún fái fyrir það doktorsnafnbót við heimspekideild, enda er hún held ég eini prófessor háskólans, sem ekki hefur lokið doktorsprófi. Jafnframt finnst mér eðlilegt að bókmenntafræðingar gefi þetta verk Helgu út, vegna þess að ég held að þetta séu góðar leiðbeiningar um það hvernig eigi að skrifa ævisögur," segir hann.
Hannes kveðst hafa nýtt sér fjöldann allan af textum þegar hann ritaði ævisögu Halldórs Laxness. "Helga ræðst t.d. á mig fyrir að nota mér lýsingu dansks manns, sem var samtímis Halldóri Kiljan Laxness í klaustrinu í Clervaux í Lúxemborg. Ég hafði upp á þessari bók og notaði mér hana. Ég pantaði hana frá Danmörku, fór í klaustrið, talaði við munkana og breytti textum eftir þeirra upplýsingum. En það var kostur á minni bók en ekki galli, að ég fann þarna lýsingu á klausturlífinu á dögum Halldórs og notaði hana. Hvar voru þá allir Laxness-fræðingarnir? Hvers vegna fór þessi bók framhjá þeim?"