Bónus gefur 15 milljónir til góðgerðarmála í tilefni af 15 ára afmæli

Í tilefni af 15 ára afmæli Bónus í apríl hefur fyrirtækið ákveðið að gefa 15 milljónir króna til ýmissa mála, líknarmála og annarra góðgerðarmála, sem forsvarsmönnum fyrirtækisins þykir mikilvægt að styrkja. Styrkirnir verða afhentir í dag.

Í tilkynningu frá Bónus er haft eftir Jóhannesi Jónssyni, kaupmanni, að allt frá fyrsta degi hafi Bónus átt mikilli velgengni að fagna og hann vilji að sem flestir fái að njóta þess. „Við höfum ávallt kappkostað að gera vel fyrir viðskiptavini okkar og reynt af fremsta megni að bjóða þeim sem allra hagstæðust kjör í gegnum tíðina. Viðskiptavinirnir hafa sýnt okkur ótrúlega mikla tryggð og sem dæmi komu um 460 þúsund viðskiptavinir í Bónusverslanirnar í mars. Fyrir þessa miklu tryggð við okkur í gegnum árin viljum við þakka á þessum tímamótum,” segir Jóhannes um gjafirnar.

Feðgarnir, Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson, opnuðu fyrstu Bónusverslunina í Skútuvogi 13 þann 8. apríl 1989. Nú eru Bónusverslanirnar 20 talsins og ný verður opnuð í Hveragerði 22. maí næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert