Hægt að ganga þurrum fótum í farvegi Skeiðarár

Þessi mynd var tekin úr árfarvegi Skeiðarár í gær. Hundurinn …
Þessi mynd var tekin úr árfarvegi Skeiðarár í gær. Hundurinn var rólegur þó svo að vatnið vantaði. mbl.is/Ragnar Frank.

Nú er hægt að ganga þurrum fótum í farvegi Skeiðarár. Oddur Sigurðsson hjá Orkustofnun segir ástæðuna vera, að Skeiðarárjökull hafi hopað það mikið að vatnið leiti nú í aðra farvegi. Óvenju mikið vatn er í Gýgjukvísl og eins í Núpsvötnum og telur Oddur að vatnið, sem venjulega er í Skeiðará, sé nú í Gýgjukvísl. Hann segir þetta ekki koma á óvart og að þessu hafi verið spáð. Orkustofnun mun á næstu dögum fara austur og mæla þær breytingar sem orðið hafa á rennsli jökulánna á Skeiðarársandi.

„Þannig er að undan Skeiðarárjökli hafa um aldir komið aðallega tvö vatnsföll, Skeiðará sem kemur að austanverðu undan jöklinum og Súla, sem kemur að vestanverðu. Jökullinn hefur hopað svo mikið að hlutföllin eru farin að breytast. Skeiðarárjökull, sem er einn allra mesti skriðjökull Evrópu, breiðir úr sér í bogalögun og slíkir jöklar ýta vatninu gjarnan út til hliðanna. Þegar þeir missa þessa lögun sína, fara að hopa, þá hætta þeir að geta ýtt vatninu út til hliðanna. Vatnið fer því að leita út frá miðju jökulsins. Því hefur verið spáð að Skeiðará og Súla myndu flytja sig í einn farveg fyrir miðju jökulsins og það er að gerast núna,“ sagði Oddur.

Hann sagði að það hafi gerst tvívegis áður, árið 1929 og 1991, að Skeiðará hafi hætt að renna, „en það var vegna þess að mikið framhlaup kom úr jöklinum og við það raskaðist rennslið svo mikið, að vatnið fann ekki sína einföldustu leið. Þessu er ekki til að dreifa nú. Ég tel því að þetta sé vegna þess að jökullinn er búinn að hopa svo mikið að hann getur ekki lengur komið vatninu út á kantana, þ.e.a.s. í Skeiðará og Súlu,“ sagði Oddur við Fréttavef Morgunblaðsins.

Óvenju mikið vatn er í Sandgýgjukvísl og eins í Núpsvötnum og telur Oddur að vatnið sem áður var í Skeiðará sé nú komið í Sandgýgjukvísl, sem rennur á milli Skeiðarár og Súlu. Hann segir að þó svo að Skeiðará sé hætt að renna núna, þá sé ekki útilokað að hlaup geti komið í ána síðar. Brúin yfir Skeiðará gæti því komið að góðum notum í framtíðinni.

Ragnar Frank þjóðgarðsvörður í Skaftafelli skoðaði aðstæður við ána í gær og segir í samtali við fréttavefinn Hornafjörð.is, að það sé sérkennileg tilfinning að standa í miðjum farvegi Skeiðarár og ekkert vatn sé nú þar sem straumhörð jökuláin rann. Morsá rennur undir Skeiðarárbrú austanmegin og Skeiðará, lítil kvísl, rennur undir brúna að vestanverðu. Vesturkvíslin kemur úr nýju útfalli og er rennsli hennar mjög lítið og ekkert í líkingu við það sem venjulega er í Skeiðará.

Mynd sem tekin var í síðasta hlaupi í Skeiðará. Nú …
Mynd sem tekin var í síðasta hlaupi í Skeiðará. Nú er vatnið í ánni nánast horfið. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert