Þegjandalegt hefur verið um björgun íslenska fjölveiðiskipsins Guðrúnu Gísladóttur KE-15 sem sökk í Nappstraumen við Lófót í Noregi fyrir tæpum tveimur árum. Í dag mun norska strandgæslan gera óþolinmóðri sveitarstjórninni í Leknes grein fyrir stöðu málsins.
Guðrún strandaði 18. júní árið 2002 og sökk daginn eftir fyrir utan bæinn Ballstad í Lófót. Íslenskir aðilar gerðu tilraunir til að ná skipinu upp og bjarga því en gáfust upp vegna fjárskorts. Í haust tóku norsk stjórnvöld björgunina yfir.
Bæði Svein Ludvigsen, sjávarútvegsráðherra, og Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra, hafa lýst því yfir að togaranum verði náð upp og komið á brott.
Björgunarfyrirtækið Seløy Undervannsservice, sem stjórnvöld fólu að ná skipinu upp, hefur verið fámált um gang verksins.
„Það er hlutverk strandgæslunnar að upplýsa fjölmiðla. Mér skilst að það verði gert í framhaldi af fundinum með sveitarstjórninni í dag,“ segir Hans Marius Mastermo, framkvæmdastjóri Seløy.
Á fréttavef blaðsins Avisa Nordland í dag segir, að á aðgerðaskrifstofu strandgæslunnar verði beðið með að fjalla um stöðu björgunar Guðrúnar Gísladóttur. Auk fundarins verður farið með sveitarstjórninni í skoðunarferð á strandstaðinn. Þar og þá munu forsvarsmenn sveitarfélagsins fá svar við því hvers vegna björgunin hefur dregist sem raunin er, segir Avisa Nordland.