Eftir er um það bil sjö daga undirbúningsvinna við björgun fjölveiðiskipsins Guðrúnar Gísladóttur KE-15 áður en hægt verður að hefjast handa við að lyfta henni af hafsbotni við Lófót í Norður-Noregi. Þar er nú gott veður og gera björgunarmenn og norska strandgæslan sér vonir um að skipið verði komið að landi og hægt verði að hefjast handa um losun þess 15. maí næstkomandi.
Forsvarsmenn norsku strandgæslunnar og björgunarfélagsins Seløy Undervannsservice funduðu í gær með yfirvöldum í sveitarfélögum sem næst eru strandstaðnum og gerðu grein fyrir framgangi björgunar Guðrúnar. Gætir þar óþolinmæði með gang mála en skipið sökk utanvið bæinn Ballstad 19. júní í hitteðfyrra, eða fyrir tæpum tveimur árum.
Á fréttavef blaðsins Lofotposten segir að frétt þeirra í dag sé sú 165. sem blaðið skrifi um strand Guðrúnu Gísladóttur og björgun hennar. „Í mörgum þeirra hefur komið fram mikil bjartsýni og háleitar vonir um að skipið yrði á flot komið eftir stuttan tíma,“ segir þar.
Haft er eftir Ottar Longva, yfirmanni hjá strandgæslunni, að björgunaraðgerðir hafi tafist fyrst og fremst vegna veðurs. Nú sé rjómablíða og í gær hafi 12 menn, kafarar og hásetar, verið að störfum við flak skipsins.
Longva segir að kostnaður við björgunina verði langtum meiri en þær 11 milljónir norskra króna sem áætlað var að verkið kostaði er strandgæslan tók verkið úr höndum íslenskra aðila sl. haust. Vildi hann þó ekki segja hversu miklu meiri en sagði að íslenska útgerðarfélaginu Festi - sem eigi skipið - yrði sendur reikningurinn.
Longva segir Seløy Undervannsservice njóta fulls trausts strandgæslunnar til verksins. Félagið hafi bjargað um 100 skipum af hafsbotni þótt ekkert þeirra væri nándar því nærri eins stórt og Guðrún, sem er 71 metra langt skip.
Hans Marius Mastermo, framkvæmdastjóri Seløy, segist ekki í nokkrum vafa að félagið nái Guðrúnu upp. Ætlunin sé að hífa það upp að yfirborðinu í þremur áföngum, 10-12 metra í hverjum. Milli hífingarlota verði skipinu mjakað í kafi upp að landi við Tarholmen en þangað eru rúmar tvær sjómílur frá þeim stað sem skipið liggur á hafsbotni nú.
Reiknað er með að Guðrún Gísladóttir verði komin á flot við Tarholmen við Lófót og hafist verði handa við að tæma það 15. maí. Í skipinu séu 340.000 lítrar af díselolíu, 2.000 lítrar af þungri hráolíu, fleiri þúsund lítrar af smurolíu og 1.500 tonn af síld í lestum. Enginn leki mun hafa verið frá skipinu til þessa, að sögn Lofotposten.
Ráðamenn í sveitarfélaginu Vestvågøy, sem næst liggur strandstaðnum, segja óljóst hvað verði um Guðrún KE þegar hún flýtur á ný og búið verður að tæma hana. Í augum yfirvalda á Lófót teljist björguninni ekki lokið fyrr en skipið verði á brott horfið. Longva segir að Festi muni taka við skipinu eftir að það hafi verið tæmt. Fyrir því hafi hann fengið fullvissu frá íslenska útgerðarfélaginu.