Davíð: Frumvarpinu ætlað að tryggja frelsi fjölmiðla

Davíð Oddsson svarar spurningum fréttamanna eftir ríkisstjórnarfund í gær.
Davíð Oddsson svarar spurningum fréttamanna eftir ríkisstjórnarfund í gær. mbl.is/Árni Torfason

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, sagði eftir þingflokksfund Sjálfstæðisflokksins í dag, þar sem frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum var afgreitt, að með frumvarpinu væri verið að tryggja frelsi fjölmiðla. Ekki er búist við að frumvarpið verði tekið til umræðu á Alþingi fyrr en á Fréttamenn, sem biðu niðurstöðu þingflokksfundanna, spurðu Davíð um ýmislegt tengt frumvarpinu og fer samtalið í stórum dráttum hér á eftir:

Spurning: Var frumvarpið samþykkt í þingflokknum núna?

Davíð: Já.

Spurning: Var sátt um frumvarpið?

Davíð: Algjör.

Spurning: Voru menn sáttir við hvernig að þessu var staðið?

Davíð: Já, mjög.

Spurning: Einhver atriði sérstaklega rædd?

Davíð: Nei, bara farið yfir frumvarpið og menn eru mjög ánægðir með það.

Spurning: Verður það lagt fram á Alþingi á eftir?

Davíð: Ég veit ekki hvort næst að dreifa því, ef ekki í dag, þá á morgun.

Spurning: Hvenær verður fyrsta umræðan?

Davíð: Það liggur ekkert á. Málið er afgreitt og sátt um frumvarpið þegar sátt um frumvarpið í stjórnarflokkunum.

Spurning: Var enginn þingmaður þingflokksins sem gerði athugasemd við frumvarpið?

Davíð: Ég vil ekki orða það þannig að enginn hafi gert athugasemd við einstök atriði, ég man ekki eftir neinu máli sem við höfum rætt í þingflokknum að ekki hafi verið einhver athugasemd við orðalag á einhverju.

Spurning: Eitthvað eitt atriði rætt frekar en annað?

Davíð: Nei, nei, það var bara mjög góð sátt um frumvarpi.

Spurning: Davíð, hverju svarar þú þeim sem segja að þarna sé um eignaupptöku að ræða?

Davíð: Ég segi að það sé rangt.

Spurning: Þessu frumvarpi er ekki beint sérstaklega gegn Norðurljósum að þínu viti?

Davíð: Nei, þessu frumvarpi er beint gegn samþjöppun í fjölmiðlum. Hins vegar myndi maður ætla þegar maður horfir á öll þessi fyrirtæki Norðurljósa og hvernig þau haga sér núna.

Spurning: Hvernig haga þau sér?

Davíð: Eins og þau haga sér núna í fréttaflutningi.

Spurning: Hvernig?

Davíð: Hefurðu ekki séð stríðsfyrirsagnirnar, hefurðu ekki séð árásirnar, hefurðu ekki séð gauraganginn? ... Ég tel að þetta sýni hins vegar mjög vel að það er ekkert frelsi blaðamanna á þessum fjölmiðlum. Það er algjörlega og eingöngu gengið erinda eigendanna.

Spurning: Geturðu nefnt okkur dæmi?

Davíð: Öll blöðin í dag. Öll.

Spurning: Ertu að segja að blaðamenn sem starfa fyrir Norðurljós séu ekki að fara eftir eigin siðferðisreglum?

Davíð: Það má vel vera að þeir geri það, þá virðist það vera þannig að það séu nákvæmlega sömu reglurnar og eigendanna.

Spurning: En er frumvarpinu beint gegn Norðurljósum?

Davíð: Nei, frumvarpið er almennt. Þið verðið að átta ykkur á því að frumvarp sem verður að lögum gildir í áratugi eða lengur ef þeim er ekki breytt. Það er margt sem breytist. Ég heyrði það alltaf á sínum tíma þegar ég var borgarstjóri að ég var að byggja ráðhús handa mér. Var ég að því? Er ég þar?

Spurning: En af hverju var tekin ákvörðun um að hafa 25% frekar en 30% sem Baugur hefur nú þegar?

Davíð: Það hefur ekkert með Baug að gera, það er verið að tryggja almennt dreifða eignaraðild í fjölmiðlafyrirtækjum.

Spurning: En ef Norðurljós og Frétt hefði ekki sameinast hefði þetta frumvarp samt verið lagt fram?

Davíð: Ég ætla ekki að svara svona hefði, hefði spurningum.

Spurning: Hvers vegna er ekkert um prentmiðla í þessu?

Davíð: Það er reyndar þannig um prentmiðla, það er gert ráð fyrir því að það fari ekki saman eignarhald á ljósvakamiðlum og prentmiðlum.

Spurning: Ekki þá beint sérstaklega gegn stöðunni eins og hún er núna?

Davíð: Það er verið að fara auðvitað fram með frumvarp og semja lög vegna þess að ástandið er orðið óviðunandi, reyndar var það og það máttu menn vita þegar þeir voru að fara af stað, því þessi nefnd, skipunin var undirbúin og kynnt fyrir alllöngum tíma síðan; það er ekkert sem þarf að koma mönnum á óvart, að stjórnvöld í landinu töldu að samþjöppun á fjölmiðlamarkaði væri ekki æskileg.

Spurning: En ertu sáttur við stöðu Ríkisútvarpsins eins og hún er í dag?

Davíð: Já, hún lýtur ákveðnum lögum, auðvitað má bæta þar eins og sjálfsagt annars staðar. Án þess að ég fari nánar út í það, ég held að staða þeirra hafi batnað, þeir hafa haft erfiða fjárhagslega stöðu, ég held hún hafi lagast.

Spurning: Nú á að leggja þetta fram á þessu þingi og afgreiða það væntanlega?

Davíð: Jú, afgreiða það.

Spurning: En liggur eitthvað á að afgreiða þetta núna, kemur til greina að fresta því, af hverju liggur á að afgreiða þetta núna?

Davíð: Það er sjálfsagt að staða eins og þessi, eins og menn hafa verið að tala um, að hún sé skýrust sem lengst, það er um að gera að klára málið, þannig að jörðin sé klár, menn viti á hverju þeir standa og svo framvegis.

Spurning: Nú er verið að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum. En hvað með fjármál stjórnmálaflokka? Sérðu eitthvað samhengi á þarna á milli?

Davíð: Nei, ég sé það nú ekki, reyndar tók ég eftir því að eigandi – stærsti aðilinn að þessum fjölmiðlum lýsti því einhvers staðar yfir að hann hefði borgað þrjár milljónir í stjórnmálaflokka, og svo tók ég eftir því að Össur Skarphéðinsson, sagðist ekki hafa fengið krónu. Það verður nú gaman að vita hver hefur fengið peningana.

Spurning: Nú segir Hreinn Loftsson að hann hafi sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum og ekki geta verið í flokki sem hagaði sér svona. Það er nú þinn gamli aðstoðarmaður, hvað viltu segja um það?

Davíð: Ég óska honum alls góðs.

Spurning: Ertu sár að missa hann úr flokknum?

Davíð: Mér þykir það lakara, þetta er ágætur maður. Það er með flokka eins og minn og aðra flokka að menn eru þar algjörlegan á eigin ábyrgð og samkvæmt eigin ákvörðun og menn ganga í flokka og fara úr flokkum ... Í mínum flokki hefur það verið svona að menn ganga í og úr flokknum svona þrír til fjórir í viku, en mér finnst auðvitað sárt að Hreinn skuli frekar kjósa að vera í Baugi en Sjálfstæðisflokknum.

Spurning: En hvað finnst þér þá um þetta frumvarp fyrir Sjálfstæðisflokkinn og fyrir þig sem forsætisráðherra?

Davíð: Þetta er bara venjulegt frumvarp sem verður klárað, verður að lögum.

Spurning: Það virðist ekki vera töluverð eining um það á Alþingi, úr því ... ?

Davíð: Það er algjör eining í stjórnarflokkunum.

Spurning: En nú eru gerðar talsverðar breytingar á því frá því þú lagðir þitt frumvarp fyrst fram, þurftirðu að bakka mikið?

Davíð: Viltu að ég orði það þannig? Þá skal ég gjarnan gera það, bakkaði heilmikið. Nei, nei, eins og ég hef sagt áður; það voru gerðar breytingar, það er þannig í raun að öll frumvörp sem ráðherrar koma með, hafa ekki verið samþykkt í ríkisstjórn, eru drög að frumvörpum og verða í raun bara frumvörp þegar þau eru samþykkt, hvort sem ég eða annar ráðherra leggur fram frumvarp, þá eru það í eðli sínu drög, þar til þau eru samþykkt í ríkisstjórn.

Spurning: En hverjar eru stærstu breytingarnar sem þú þurftir að bakka með?

Davíð: Ég ætla ekki að fara yfir það, því það sem skiptir máli er frumvarpið, sem var ákveðið, sem ég er mjög ánægður með, eins og áður hefur komið fram, sem báðir flokkarnir eru mjög sáttir við.

Spurning: En hvað um ákvæðið um prentmiðla?

Davíð: Eins og ég segi, drögin sem voru lögð fram þau eru farin.

Spurning: Viltu efla Ríkisútvarpið?

Davíð: Ég tel að Ríkisútvarpið eigi að vera í góðri stöðu. Það sé eðlilegt og sterkt. En jafnframt var ég baráttumaður fyrir frjálsu útvarpi og sjónvarpi á sínum tíma, sem reyndar ýmsir þeir sem hátt hafa í þinginu í dag, voru ekki mikið hrifnir ... þeir voru reyndar allir á móti þessu, allur Alþýðuflokkurinn var á móti frjálsu útvarpi.

Spurning: En er þetta persónulegt?

Davíð: Nei þetta er bara frumvarp sem stjórnarflokkar flytja.

Spurning: En er þetta ekki á skjön við stefnu Sjálfstæðisflokksins um meira frelsi?

Davíð: Nei, ég tel að það sé verið að tryggja frelsi. Það er verið að tryggja frelsi.

Spurning: Hvers?

Davíð: Fjölmiðla.

Spurning: Viltu afnema afnotagjöld af Ríkisútvarpinu eins og Halldór Ásgrímsson?

Davíð: Já, ég hef lengi talið að við ættum að finna annan flöt á því, en við höfum ekki fundið hann.

Spurning: En liggur ekkert á því þá?

Davíð: Jú, það hefur lengi verið í umræðunni, og mér finnst vænt um það ef Framsóknarflokkurinn er kominn inn á þá skoðun að við ættum að breyta þar til.

Spurning: Hafið þið þá ekkert rætt mál RÚV milli stjórnarflokkanna?

Davíð: Jú, við höfum gert það iðulega á undanförnum átta árum, margvísleg málefni, og oft hefur það skilað ágætum árangri, en megin breytingar, eins og menn vita, hafa ekki verið samþykktar á rekstri útvarpsins.

Spurning: Af hverju ekki?

Davíð: Af því menn hafa ekki komið sér saman um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert