Landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og Bændasamtök Íslands undirrituðu í dag samning um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu er gildir í átta ár eða til 31. ágúst 2012. Samkvæmt samningnum fá mjólkurbændur 28.173 milljónir úr ríkissjóði á samningstímabilinu. Verðlagning mjólkur verður með sama hætti og verið hefur.
Samningurinn inniheldur óbreytta framleiðslustýringu við mjólkurframleiðslu en ákvörðun heildargreiðslumarks mjólkur byggir á neyslu innlendra mjólkurvara undanfarna tólf mánuði. Þá er í samningnum óbreytt ákvæði um skiptingu heildargreiðslumarks mjólkur niður á lögbýli.
Markmið samningsins eru að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða og stuðningur ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði.
Einnig að fjárhagslegur stuðningur ríkisins við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda. Jafnframt að viðhaldið verði þeim stöðugleika sem náðst hefur milli framleiðslu og eftirspurnar og að greinin fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni.
Þá er og markmið með samningnum að greinin geti þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og unnt sé að endurnýja framleiðsluaðstöðu með eðlilegum hætti. Ennfremur að gætt sé sjónarmiða um dýravelferð og heilnæmi afurða.
Nokkrar breytingar verða gerðar á stuðningsfyrirkomulagi ríkisins. Helstu breytingarnar eru þær að stuðningur ríkisins verður ekki lengur ákveðið hlutfall af verði mjólkur eins og verið hefur, heldur hefur verið samið um fastar heildarfjárhæðir beingreiðslna.
Þá hefur einnig verið samið um að 20% af heildarstuðningi eða nærri 800 milljónir króna á lokaári samningsins verði nú beint í annan farveg stuðnings eða í svokallaðar „grænar“ greiðslur annars vegar og „bláar greiðslur“ hins vegar.
Grænar greiðslur eru óframleiðslutengdar en bláar greiðslur eru skilgreindar sem framleiðslutakmarkandi greiðslur. Þetta er m.a. gert í þeim tilgangi að mæta hugsanlegum breytingum á skuldbindingum Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).
Þau verkefni sem um er að ræða eru greiðslur vegna kynbóta- og þróunarstarfsemi, gripagreiðslur sem er ákveðinn stuðningur til aðila er eiga kýr og greiðslur sem m.a. faria til eflingar jarðræktar.
Samkvæmt samningnum, sem fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra nudirrituðu ásamt fulltrúum bænda, verða framlög ríkisins fjórir milljarðar á árinu 2005/2006 en lækkar síðan að jafnaði um 1% á ári og verða 234 milljónum lægri - 3.766 milljónir - síðasta samningsárið, 2011/2012.