Guðrún tilbúin til hífingar

Guðrún Gísladóttir KE sekkur í Nappastraumen við Norður-Noreg.
Guðrún Gísladóttir KE sekkur í Nappastraumen við Norður-Noreg. mbl.is

Allt er nú klárt til að lyfta fjölveiðiskipinu Guðrúnu Gísladóttur KE-15 af hafsbotni við Lófót í Norður-Noregi en skipið sökk þar 18. júní árið 2002. Veðurútlit í Nappstraumen þar sem skipið liggur er gott og er nú talið að skipið verði komið á flot áður en tvö ár líða frá því það sökk. Þó mistókst á sunnudag að rétta skipið af á botninum.

Lokið var á laugardag við að festa alla þá stáltanka við Guðrúnu sem ætlunin var að nota til að lyfta henni, en skipið liggur á sandbotni á 40 metra dýpi undan bænum Ballstad í Lófót.

Ætlunin var að rétta Guðrún við á sunnudag en hún hafði grafið sig í sandinn og á henni 50 gráðu slagsíða. Tókst björgunarmönnum Seløy Undervannsservice að rétta skipið við í fyrrahaust um það leyti sem tilraunir íslenskra aðila til að bjarga skipinu fóru út um þúfur en straumar höfðu lagt það á hliðina í millitíðinni.

Voru ráðstafanir til að auka lyftikraft gerðar í fyrradag til að rétta Guðrúnu við. Ætlunin var að lyfta skipinu um 12 metra frá botni eftir að það hafði verið rétt við og færa það þannig í kafi um þriðjung vegalengdarinnar til lands. Talið er að það verk taki ekki nema sólarhring en skipið liggur um 4 km frá Ballstad.

Að þessari lotu lokinni verður Guðrúnu tyllt á botninn á minna dýpi og stytt í keðjum sem tankarnir eru festir með við skipið svo lyfta megi því aðra 12 metra í átt til yfirborðsins. Að því búnu verður leikurinn endurtekinn og eftir þriðju lotu verður skipið komið nánast að bryggju.

Þá er ætlunin að dæla öllum sjó úr skipinu svo það fljóti og verður því þá komið upp að bryggju og það losað af olíu og farmi.

Fjölveiðiskipið Guðrún Gísladóttir KE-15 er 71 metra langt og var á landleið með 850 tonn af frystum síldarflökum er það strandaði á skeri í Nappstraumen undan Ballstad 18. júní 2002. Mannbjörg varð er skipið sökk daginn eftir. Um borð voru einnig 300 tonn af díselolíu.

Margir tankar eru notaðir til að lyfta Guðrúnu af hafsbotni.
Margir tankar eru notaðir til að lyfta Guðrúnu af hafsbotni. mbl.is
Björgunarprammi frá Seløy yfir Guðrúnu KE.
Björgunarprammi frá Seløy yfir Guðrúnu KE. mbl.is
Björgunarskip Seløy Undervannsservice með tank sem sökkt var niður að …
Björgunarskip Seløy Undervannsservice með tank sem sökkt var niður að Guðrún Gísladóttur. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert