Kona úrskurðuð í gæsluvarðhald til 14. júní

Sérfræðingar tæknideildar lögreglunnar að störfum við heimilið í morgun.
Sérfræðingar tæknideildar lögreglunnar að störfum við heimilið í morgun. mbl.is/Júlíus

Kona, sem var flutt með stungusár á sjúkrahús í Reykjavík snemma í morgun, hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 14. júní. Þá verður hún látin sæta geðrannsókn. Konan er grunuð um að hafa orðið 12 ára dóttur sinni að bana og veitt 14 ára syni sínum áverka. Pilturinn og móðir hans fóru í aðgerð í morgun en eru ekki í lífshættu. Lögreglan hefur enn ekki yfirheyrt konuna.

Lögreglunni var tilkynnt um ungan pilt með stungusár um klukkan 5:21 í gærmorgun. Drengurinn hafði þá hlaupið fáklæddur með mikla áverka heiman frá sér úr húsi við Hagamel, nokkur hundruð metra leið að fjölbýli við Kaplaskjólsveg, þar sem hann þekkir til og leitað sér aðstoðar. Slóð drengsins var blóði drifin.

Lögregla og sjúkralið voru kölluð á staðinn og var drengurinn fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Í kjölfarið var farið inn á heimili piltsins þar sem móðir hans og systir fundust og voru báðar með mikla áverka. Stúlkan var úrskurðuð látinn á staðnum.

Greint var frá því í fréttum Bylgjunnar að sameiginleg minningarathöfn Hagaskóla og Melaskóla fari fram í Neskirkju klukkan 20 í kvöld. Stúlkan var nemandi í Melaskóla en bróður hennar er nemandi í Hagaskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert