Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group: Ótækt að stjórnarmenn beiti sér gegn ákveðnum félögum

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, sendi Ara Edwald, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, bréf 23. mars síðastliðinn vegna umræðna um lífeyrismál.

"Í framhaldi af fyrirspurn um réttindi starfsfólks okkar til að fullnægja skylduaðild að lífeyrissjóði með greiðslu annað en í Lífeyrissjóð verslunarmanna, viljum við mótmæla þeim texta sem sendur var út fyrir stjórnarfund SA 2. desember og fram kemur í fundargerð fundar lífeyrishóps.

Þær niðurstöður sem mest sátt var um á fundinum og kynntar verða stjórn SA voru eftirfarandi:

1. Leggja ætti til að breyta orðalagi samningsins við ASÍ þannig að skýrt kæmi fram að skylduaðild að Lífeyrissjóði verslunarmanna yrði með sama hætti og annarra.

2. Ganga ætti út frá sömu mörkum varðandi gjaldfærni annars vegar í lögum um lífeyrissjóði og hins vegar í samningum við verkalýðsfélög vegna skylduaðildar. Viðmiðunarmörk lífeyrissjóðslaga þyrfti hins vegar að þrengja. Rétt væri að breyta orðalagi samnings við ASÍ þannig að hann væri skýr um þetta, en sú stefnumörkun tengist því að samstaða náist um að þrengja mörk laganna. Leita þurfi til tryggingastærðfræðings um aðstoð við að útfæra ný mörk, m.a. hvort eðlilegt væri að miða mörk við meðaltal tiltekinna tímabila.

3. Leggja ætti til að lágmarksfjöldi sjóðfélaga yrði hækkaður í 5.000 manns úr 800 manns, sem hann er nú.

Við leggjum ríka áherslu á að 1. töluliðurinn í þessum texta verði felldur niður því að við höfum undanfarið verið að skoða möguleikann á því að starfsmenn okkar geti greitt í annan lífeyrissjóð. Fyrirtækin sem hér um ræðir eru fyrirtækin innan Haga hf., Húsasmiðjan hf., Norðurljós hf. og ýmis smærri félög. Eins og við höfum marg oft bent stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna á, þá teljum við ótækt að sumir stjórnarmenn sem sitja í stjórn fyrirtækja í krafti atkvæða sjóðsins beiti sér gegn ákveðnum félögum sem eru stórgreiðendur í sjóðinn. Þá hefur ákveðin óvild fulltrúa sjóðsins orðið til þess að við höfum þurft að færa stórviðskipti frá fyrirtækjum sem Lífeyrissjóður verslunarmanna á fulltrúa í. Það er augljóst að þegar stórfyrirtæki eru sett í þá stöðu að þurfa t.d. að færa sig úr bankaviðskiptum, þá rýrir það eign sem sjóður á í. Tel ég engan vafa leika á því að í okkar tilfelli hafi stjórnarmaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna gerst sekur um að rýra eign sjóðsins. Við berum hag starfsmanna okkar í brjósti og getum því ekki með nokkru móti mælt með því að þeir greiði lífeyrissparnað sinn í sjóði sem hafa í frammi þau vinnubrögð sem að ofan hafa verið talin.

Þá er full ástæða til að taka undir það sjónarmið sem rætt hefur verið innan SA að fulltrúar lífeyrissjóða séu ekki tilnefndir í stjórnir félaga sem sjóðirnir eiga eignarhlut í. Slíkt er beinlínis skaðlegt og getur leitt til þess að sjóðir selji síður eignir sínar þegar tilboð berast, vegna þess að stjórnarmenn sjóðsins eiga þá á hættu að missa sæti sín. Sem dæmi á Lífeyrissjóður verslunarmanna 36% af innlendri hlutabréfaeign sinni í Íslandsbanka meðan Íslandsbanki er 12% af úrvalsvísitölu. Nauðsynlegt er að lífeyrissjóðir geti starfað í góðu jafnvægi við fyrirtækin í landinu og þeirrar meginstefnu sé gætt að fjárfesta án þess að beita áhrifum í stjórn heldur sinna stjórnun með þeim hætti að flytja eignir sínar milli félaga eftir gengi þeirra. Segja má að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hafi gengið fram með góðu fordæmi í rekstri á sínum sjóði. Því er mikilvægt að SA beiti sér fyrir því að þeir lífeyrissjóðir sem SA tilnefnir fulltrúa í fylgi þessari óháðu stefnu. Varðandi starfsreglu um hámarkstíma þá hefur SA farið eftir því sem ákveðið var á sínum tíma. Því er það sorglegt að sjá Samtök iðnaðarins brjóta þá reglu sem samtök atvinnurekenda höfðu komið sér saman um. Þá er nauðsynlegt að ferskir vindar blási reglulega í stjórnum slíkra sjóða og þannig verði komið í veg fyrir að einstakir stjórnarmenn líti á sjóði sem þeirra eigin.

Sem ráðandi aðilar og eigendur í stórum íslenskum fyrirtækjum er okkur ákaflega mikilvægt að lífeyrissjóðirnir vinni í sátt við fyrirtækin í landinu og að lífeyrissjóðirnir vinni eftir fyrirfram ákveðnum leikreglum t.d. um stjórnarsetu manna í félögum eigin sjóða, hámarks fjárfestingu í einu félagi, starfsaldur o.s.frv. Ef ekki, verður ekki langt að bíða þess að brestir gætu komið í samstarf atvinnurekenda.

Að lokum vil ég leggja til að hið fyrsta verði boðað til stjórnarfundar í SA þar sem þessi mál verði rædd."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert