Forsetinn staðfestir ekki fjölmiðlalögin

Ólafur Ragnar Grímsson les yfirlýsingu sína á Bessastöðum í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson les yfirlýsingu sína á Bessastöðum í dag. mbl.is/Júlíus

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnti á blaðamannafundi á Bessastöðum að hann hefði ákveðið staðfesta ekki fjölmiðlalögin, sem Alþingi samþykkti í síðustu viku og vísa þeim þannig í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fari fram eins fljótt og unnt er. Ólafur Ragnar las upp yfirlýsingu þessa efnis á blaðamannafundinum og sagði m.a. að skort hefði á samhljóminn sem þyrfti að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli en að í þessari ákvörðun fælist hvorki gagnrýni á Alþingi né ríkisstjórn og ekki heldur efnisleg afstaða til laganna sjálfra. Sagðist Ólafur Ragnar hafa í dag gert forsætisráðherra og utanríkisráðherra grein fyrir ákvörðun sinni og efni yfirlýsingarinnar. Hann svaraði ekki spurningum fréttamanna og sagði rétt að láta efni yfirlýsingarinnar tala á þessum degi.

Yfirlýsing Ólafs Ragnar Grímssonar var eftirfarandi:

„1. Lýðræði, frelsi og mannréttindi eru grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar.

2. Fjölþætt tækifæri til að tjá skoðanir, meta stefnur og strauma og fá traustar fréttir af innlendum og erlendum vettvangi, eru mikilvægar forsendur þess að lýðræði okkar sé lifandi veruleiki.

3. Fjölmiðlar eru í nútíma samfélagi sá tengiliður, sem skapar almenningi aðstöðu til að njóta slíkra réttinda. Fjölbreyttir og öflugir fjölmiðlar eru ásamt þrískiptingu ríkisvaldsins skilyrði fyrir því að lýðræðislegt þjóðfélag geti þrifist og þroskast.

4. Þrískipting ríkisvaldsins er tryggð í stjórnarskránni en fjölmiðlarnir eiga sér flókari rætur. Þess vegna er nauðsynlegt að lög og reglur, sem um þá gilda, þjóni skýrt markmiðum lýðræðisins og víðtæk sátt ríki um slík lög líkt og víðtækt þjóðfélagslegt samkomulag þarf að vera um hvernig þrískiptingu ríkisvaldsins er háttað.

5. Fjölmiðlarnir eru svo mikilvægir í lýðræðisskipan nútímans, að þeir eru tíðum nefndir fjórða valdið. Margir telja að fjölmiðlarnir hafi meiri áhrif á hið raunverulega lýðræði sem þjóðir búa við, en formlegar reglur um valdmörk helstu stofnana. Í stjórnarskrá okkar segir: „Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.“

6. Sjálfstæðir og öflugir, fjölbreyttir og frjálsir fjölmiðlar eru hornsteinar lýðræðisins.

7. Á tímum vaxandi alþjóðavæðingar eru gróskumiklir íslenskir fjölmiðlar einnig forsenda þess að við varðveitum áfram íslenska tungu, búum við sjálfstæða menningu og getum metið heimsmálin á eigin forsendum. Kraftmikil íslensk fjölmiðlun styrkir stöðu okkar í samkeppni við erlenda miðla og gegnir lykilhlutverki við að tryggja að íslensk menning og tunga haldi stöðu sinni og eflist á nýrri öld.

8. Að undanförnu hafa verið harðar deilur um þann lagagrundvöll fjölmiðlanna sem mótaður er í frumvarpi sem Alþingi hefur nú afgreitt. Þá hefur og ítrekað verið fullyrt að þetta lagafrumvarp muni hvorki standast stjórnarskrá né alþjóðlega samninga. Réttmæti þeirra fullyrðinga munu dómstólar meta. Mikilvægt er hinsvegar að lagasetning um fjölmiðla styðjist við víðtæka umræðu í samfélaginu og almenn sátt sé um vinnubrögð og niðurstöðu.

9. Því miður hefur skort samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa.

10. Það verður best gert með því að þjóðin fái í hendur þann rétt sem henni er veittur í stjórnarskrá lýðveldisins og meti lagafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

11. Ég hef því ákveðið í samræmi við 26. grein stjórnarskrárinnar að staðfesta ekki lagafrumvarp um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum og vísa því á þann hátt í dóm þjóðarinnar. Samkvæmt stjórnarskránni skal sú þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram „svo fljótt sem kostur er."

12. Í ákvörðun minni felst hvorki gagnrýni á Alþingi né á ríkisstjórn og ekki heldur efnisleg afstaða til laganna sjálfra. Eingöngu sú niðurstaða að farsælast sé fyrir okkur Íslendinga að þjóðin fái tækifæri til að kveða upp sinn dóm. Við búum að stjórnskipan, þar sem forseti Íslands og aðrir kjörnir fulltrúar sækja vald sitt og umboð til hennar. Þjóðin hefur samkvæmt stjórnarskránni síðasta orðið.

Bessastöðum 2. júní 2004
Ólafur Ragnar Grímsson"

Lögin sem forseti Íslands hefur ákveðið að staðfesta ekki

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka